spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaValsmenn lögðu baráttuglaða ÍR-inga í Hellinum

Valsmenn lögðu baráttuglaða ÍR-inga í Hellinum

Valur lagði heimamenn í ÍR í kvöld í Subway deild karla, 80-83. Eftir leikinn er Valur í 4. sæti deildarinnar með 20 stig á meðan að ÍR er í 9. sætinu með 14 stig.

Fyrir leik

Liðin höfðu í eitt skipti áður mæst í deildinni á tímabilinu. Þann 11. nóvember hafði Valur nokkuð öruggan 13 stiga sigur í Origo Höllinni, 92-79.

Heimamenn í ÍR verið gífurlega heitir í síðustu leikjum, unnið fjóra af síðustu fimm á meðan. Valsmenn aðeins meira upp og niður, unnið þrjá af síðustu fimm.

Gangur leiks

Valsmenn byrjuðu leik kvöldsins mun betur, ná að byggja sér upp 10 stiga forystu snemma í leiknum. Heimamenn svara því með nettu áhlaupi undir lok fyrsta fjórðungsins og eru aðeins tveimur stigum fyrir aftan að honum loknum, 18-20. Valur nær svo aftur að vera skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum, setja forystu sína mest í 13 stig í fjórðungnum, en eru 9 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 30-39.

Stigahæstur fyrir ÍR í fyrri hálfleiknum var Jordan Semple með 15 stig, en við það bætti hann 8 fráköstum. Fyrir gestina var Kristófer Acox atkvæðmestur í fyrri hálfleiknum með 11 stig og 5 fráköst.

Heimamenn mæta dýrvitlausir til leiks í seinni hálfleikinn. Ná að vinna niður forystu Vals snemma í þriðja leikhlutanum og eru 3 stigum yfir fyrir þann fjórða, 61-58. Leikurinn er svo mest megnis í járnum í lokaleikhlutanum þó svo að oftar en ekki sé Valur körfu á undan. Þrátt fyrir hetjulega baráttu heimamanna sigla gestirnir svo þriggja stiga sigur í höfn að lokum, 80-83.

Tölfræðin lýgur ekki

Valsmenn pössuðu boltann nokkuð vel í leik kvöldsins, voru aðeins með 8 tapaða bolta á móti 17 töpuðum boltum ÍR.

Atkvæðamestir

Jordan Semple var lang atkvæðamestur í liði heimamanna í kvöld með 31 stig og 12 fráköst. Honum næstur var Collin Pryor með 18 stig.

Fyrir Val var Kristófer Acox atkvæðamestur með 21 stig, 8 fráköst og Kári Jónsson bætti við 17 stigum, 5 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst eftir landsleikjahlé. ÍR heimsækir KR þann 4. mars og Valur á leik degi seinna gegn Keflavík í Origo Höllinni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -