spot_img
HomeFréttirSanngjarn og öruggur danskur sigur

Sanngjarn og öruggur danskur sigur

Íslenska u22 landsliðið beið lægri hlut gegn danska u22 liðinu í æfingaleik í Ásgarði í dag. Lokatölur voru 69-83 eftir að staðan hafði verið 34-51 í hálfleik.
 
Eftir fjörlegar fyrstu mínútur voru það gestirnir sem náðu yfirhöndinni snemma leiks. Varnarleikur liðanna var ekki burðugur til að byrja með en íslenska liðið réði illa við stóru leikmenn Dana sem virtust skora að vild. Leikur íslenska liðsins bar þess keim að liðið hefur haft lítinn tíma til að undirbúa sig fyrir þetta verkefni. Leikmenn voru full fljótir að fara útúr skipulögðum sóknaraðgerðum og reyna hluti uppá eigin spýtur. Danska liðið nýtti sér það ásamt slökum maður á mann varnarleik heimamanna og komst í 40-19 um þegar fjórar mínútur voru búnar af öðrum leikhluta eftir að hafa leitt 26-14 eftir þann fyrsta. Eftir leikhlé kom íslenska liðið útá gólfið í svæðisvörn sem hægði á gestunum og við það öðlaðist liðið sjálfstraust í sókninni. Maciek Baginski átti líflega innkomu af bekknum og setti niður 8 stig á skömmum tíma en annars var fátt um fína drætti í fyrri hálfleiknum sem lauk einsog áður sagði 34-51.
 
Danirnir byrjuðu seinni hálfleikinn mun sterkar og náðu mest 25 stig forskoti í þriðja leikhlutanum en þá virtist kvikna líf í íslenska liðinu. Hægt og rólega náði liðið taktinum og skoruðu 9 síðustu stig þriðja leikhlutans og breyttu stöðunni úr 42-67 í 51-67 fyrir lokaleikhlutann. Krafturinn hélt áfram inní fjórða leikhlutann og minnkaði Kristófer Acox muninn niður í 61-70 þegar um 6 mínútur voru eftir. Kristófer átti góðan seinni hálfleik og fór mikinn á þessum kafla. Því miður var holan sem liðið var búið að grafa sér framan af leik of djúp og komst íslenska liðið ekki nær því danska að þessu sinni. Sanngjarn og öruggur 69-83 sigur hjá danska liðinu en liðin mætast aftur í Garðabænum á laugardaginn næstkomandi.
 
Íslenska liðið og leikmenn þess voru langt frá sínu besta í þessum leik og augljóst sumar/haustbragur á frammistöðunni. Leikur liðsins batnaði þó til muna þegar leið á leikinn enda tekur tíma fyrir svona hóp að slípa sig saman. Helsta áhyggjuefnið var þó arfaslakur maður á mann varnarleikur liðsins fyrstu 14 mínútur leiksins en svæðisvarnarafbrigðin frá þeim tímapunkti gengu betur. Kristófer Acox bar af í íslenska liðinu með 20 stig og 11 fráköst en aðrir leikmenn náðu sér ekki á strik.
 
Mynd/ SÖA
 
  
Fréttir
- Auglýsing -