Fyrr í mánuðinum leystu Los Angeles Lakers Metta World Peace (MWP og áður þekktur sem Ron Artest) undan samningi hjá sér með ákvæði í kjarasamningi NBA leikmanna sem heitir “The Amnesty Clause“. Sú regla leyfir liði að losa sig við leikmann og laun hans undan launaþakinu og refsiskattsmörkunum.
MWP tjáði sig hátt um það að hann hefði engan áhuga á að spila í NBA á næsta tímabili og ætlaði bara til Kína til að spila og þá mögulega fótbolta. Í gær kom það svo í ljós að hann hafði samið við New York Knicks fyrir næstu tvö ár fyrir skiptimynt.
Þessi snúningur var samsettur svo MWP gæti samið við það lið sem hann vildi fyrir lítin pening án þess að tapa því sem hann átti inni.
Ég ætla að gera tilraun til að útskýra hvernig.
Amnesty reglan virkar þannig að vilji lið losa sig við leikmann á þann hátt fer sá leikmaður á “waivers” sem kallað er. Það er ástand sem varir í tvo sólarhringa þar til leikmaðurinn losnar endanlega undan samningi við liðið sem sleppir honum.
Í millitíðinni geta hins vegar önnur lið tekið við samningnum og þurfa þá að bjóða að lágmarki það sem munar á milli heildarsamnings leikmanns og því sem er tryggt (e. guaranteed). Það lið sem býður hæstu upphæðina nær í leikmanninn og bjóði tvö lið sömu upphæðina hlýtur það lið sem er með verri árangur í deildinni vinninginn.
Þetta þýðir að slök lið hafa ótvíræðan forgang að leikmönnum sem leystir eru undan samningi á þennan hátt – en reyndir og þekktir leikmenn (e. veterans) hafa kannski ekki endilega áhuga á að leika með þannig liðum. Þess vegna lýsti MWP því yfir að hann hefði engan áhuga á að spila í deildinni áfram og var því að senda liðum deildarinnar þau skilaboð að hann vildi ekki að neitt lið tæki upp samninginn hans á þessu tveggja sólarhringa tímabili.
Um leið og “waiver” tímabilinu lauk tilkynntu MWP og NYK að samið hefði verið til tveggja ára um $1,6 milljónir, eða það sem Knicks áttu eftir af sinni Mini Mid-Level Exception (sem er ein af mörgum undanþágum sem lið fá til að sleppa við refsiskattinn).
…og hér kemur rúsínan í pylsuendanum: Los Angeles Lakers þurfa samt sem áður að greiða MWP þær $7,3 milljónir sem liðið skuldar honum fyrir næsta leiktímabil.
Hvers vegna? Jú, þegar lið losar sig við leikmann með Amnesty og annað lið tekur við honum þá losnar það við allar skuldbindingar við leikmanninn ef það tekur allan samninginn (e. full waiver claim) eða skuldar enn leikmanninum mismuninn af því sem hitt liðið býður (e. partial waiver claim) og því sem eftir er og tryggt af gamla samningnum. Ef leikmaðurinn hins vegar verður óskuldbundinn með lausan samning (e. unrestricted free agent) eftir tveggja sólarhringa tímabilið getur hann samið við hvaða lið sem er fyrir hvaða upphæð sem er AUK ÞESS að fá greitt það sem tryggt var af því sem eftir var að samningi hans við hitt liðið.
Flestir þekktir og reyndir leikmenn eins og MWP eru með allan samninginn tryggðan og því þurfa Lakers að greiða MWP það sem þeir sömdu um á sínum tíma.
Með þessari fléttu tókst Knicks að tryggja sér þjónustu MWP fyrir lítin pening og sleppa við refsiskatt af því auk þess sem MWP tryggir sér fína viðbót á samning sinn við Lakers.
Mögulegt er að þetta hafi verið gert með vitund stjórnenda Lakers þar sem það er nokkuð líklegt að eitthvað af neðri liðum deildarinnar með pláss undir þakinu hefði tekið að sér samning MWP, og Lakers sloppið við það sem þeir skulda honum. Lakers hafa hins vegar ekki kvartað yfir þessu fyrirkomulagi því ekki ólíklegt að þeir hafi gefið því blessun sína.
Lakers voru á vissan hátt nauðbeygðir til að losa sig við MWP en það allt hins vegar gert í góðu og allir sáttir. Mögulegt að þessi flétta sé ástæðan fyrir því, þó hún kosti Lakers dágóðan skilding.
Meira um kjarasamning NBA deildarinnar: Larry Coon’s CBA FAQ