Neikvæð áhrif Ákvörðunarinnar alræmdu eru farin að dvína og sár fyrrum stuðningsmanna LeBron James eru farin að gróa. LeBron James er nú aftur orðinn vinsælasti leikmaður NBA deildarinnar.
12,9% aðspurðra settu LeBron James í fyrsta sætið yfir uppáhaldsleikmann sinn í deildinni. Næstur á eftir kom Kobe Bryant með 12,5%. Eftir að James ákvað að segja skilið við Cleveland borg og ferja hæfileika sína til suðurstrandar Miami hrundu vinsældir hans meðal fylgjenda NBA deildarinnar umtalsvert og Kobe Bryant tók við krúnunni.
Nú, þremur árum síðar og tveimur titlum síðar, er hann kominn aftur á toppinn. Margir telja það vera vegna þess að hann hafi bætt leik sinn umtalsvert auk þess að hafa risið upp í úrslitaviðureignum síðustu tveggja ára.
Það sem vekur hins vegar athygli er að vinsældir hans eru að aukast meðal þeirra sem fylgjast mjög mikið með deildinni, en 18,9% þeirra segja hann sitt uppáhalds, sem er meira en nokkru sinni áður.
Topp 5 listinn er á þessa leið:
LeBron James 12,9%
Kobe Bryant 12,5%
Kevin Durant 3,6%
Derrick Rose 2,8%
Dwyane Wade 2,6%