Á morgun leggur Kristófer Acox land undir fót þegar hann heldur áleiðis til Bandaríkjanna en næstu fjögur árin mun hann stunda nám við bandaríska háskólann Furman ásamt því að leika með körfuboltaliði skólans en það er í 1. deild NCAA háskóladeildarinnar vestra. Karfan.is greip í skottið á „Kristó“ eins og hann er jafnan kallaður og ræddi við hann um brottflutninginn en þetta verður ekki í fyrsta sinn sem hann heldur til Ameríku í nám og körfu.
„Maður er bæði stressaður og spenntur allt í einu,“ sagði Kristó þegar Karfan.is náði í hann. „Liðið er búið að vera í einhverju prógrammi í allt sumar, það kom inn nýr þjálfari sem hefur verið að halda úti einstaklingsæfingum og fleiru,“ sagði Kristó sem byrjar á því að taka sér stutt frí þegar út er komið og er mættur á skólalóð Furman þann 23. ágúst næstkomandi.
Aðspurður hvernig kröfur samfélagið gerði til Furmanskólans í 1. deildarumhverfi sagði Kristó: „Furman er ekki á sama „leveli“ og t.d. Duke eða North Carolina en engu að síður er þetta lið í 1. deildinni og með nýjan þjálfara sem kom frá Colorado University og þar eru miklar körfur á að vinna. Við erum með mjög ungt lið svo það er pláss til að þroskast og verða betri en ég held að pressan á liðinu verði lítil. Ég tel einnig að pressan á þjálfaranum verði ekki mikil en við eigum engu að síður að vera með lið sem veitir hverjum sem er alvöru mótspyrnu.“
Kristófer er ekki að öllu ókunnur Bandaríkjunum enda á hann rætur að rekja þangað sem og ársdvöl ytra í miðskóla en munurinn á honum og háskóla er þó töluverður. „Þetta verður aðeins öðruvísi núna, betri bolti, annað „prógramm“ og maður verður ekki lengur að spila við 14-16 ára leikmenn. Ég býst við mun meiri samkeppni og betri bolta og svo vitaskuld er tímabilið lengra en í miðskólanum.“
Eitthvað þarf svo að glugga í bækur við Furman-skólann en hvað á að leggja stund á? „Ég byrja í Pre-Med ( insk. blm. grunnur að lækninganámi) en stefnan í framtíðinni er sett á tannlækningar. Maður hefur einhver tvö ár til að ákveða sig alveg svo fram að því verð ég duglegur við að taka svona undirbúningsnámskeið í skólanum.“
Við gátum þó ekki sleppt háloftafulginum án þess að spyrja hvort hann myndi ekki sakna þess að vera með flest „hits“ á leikbrot.is myndböndunum þar sem hann myndi ekki leika hér heima næsta tímabil?
„Jú jú, sagði Kristó,“ fremur hæverskur og var fljótur að beina fremur sjónunum að öðru. „Nú er maður búinn að spila eitt svona alvöru tímabil hér heima í efstu deild og vissulega hefði verið gaman að ná því að spila í úrvalsdeild með Martin og Matta,“ sagði Kristófer en hvernig heldur hann að uppeldisfélaginu KR muni ríða af á næsta tímabili?
„KR er með lið núna sem á eftir að fara ansi langt ef ekki alla leið, það hlýtur að vera. Matti og Magni eru komnir ásamt Darra og ég held að 4+1 reglan henti mjög vel fyrir KR og verður spennandi að fylgjast með þeim í vetur. Það er svo vonandi að Martin taki við troðslukeflinu,“ sagði Kristófer en hinn nýráðni þjálfari KR hefur látið hafa það eftir sér opinberlega að Martin Hermannsson geti ekki troðið. „Hann getur troðið, en það er alltaf sama troðslan,“ sagði Kristófer Acox háloftafugl að lokum um æskuvin sinn Martin Hermannsson.
Fylgstu með okkur á Twitter: