Ísland mætti Búlgaríu í gærkvöld í einum mikilvægasta leik liðsins í mörg ár. Í húfi var sæti á EM 2015 en svekkjandi tap gerði út um drauminn að komast á EM í þessari forkeppni. Ekki er þó öll von úti.
Næsta sumar tekur við undankeppni EM 2015 þar sem stóru liðin koma inn í keppnina og skiptir það miklu máli fyrir Ísland að vera eins ofarlega í styrkleikaröðinni og hægt er. Til þess að lyfta sér ofar á listann þarf Ísland að sigra Rúmena á föstudaginn næstkomandi og enda í öðru sæti riðilsins. Það gefur því auga leið að sá leikur er ekki síður mikilvægur liðinu, þó svo að sigur komi liðinu ekki áfram.
Stuðningur við liði á leiknum gegn Búlgaríu var frábær. Þarna voru saman komnir um 1500 manns til að horfa á liðið spila og var klappað og hvatt nánast allan leikinn. Það er óskandi að landinn fjölmenni einnig á leikinn á föstudaginn til að hvetja liðið áfram og sýna því þá virðingu sem það á skilið. Drengir liðsins leggja sig alla fram og því ættu við stuðningsmenn að gera slíkt hið sama.
Leikurinn gegn Rúmeníu hefst kl. 19:15 á föstudaginn og miðasala er í fullum gangi á midi.is