Bergþóra Tómasdóttir er nýjasti liðsmaður KR í Domino´s deild kvenna en hún er uppalin hjá Fjölni og sagði í samtali við Karfan.is að það hefði ekki verið létt ákvörðun að segja skilið við gula liðið í Grafarvogi. Bergþóra verður KR-ingum mikill liðsstyrkur en hún var t.d. valin besti ungi leikmaðurinn í úrvalsdeild kvenna tímabilið 2010-2011.
„Ég valdi að fara frá Fjölni útaf því að úrvalsdeildin heillar mig mun meira. Í henni spila liðin 28 leiki en bara 14 í 1. deildinni. Í raun er allt of mikill munur á þessum deildum. Ég fór á nokkrar æfingar hjá KR og leist bæði vel á liðið og þjálfarann,“ sagði Bergþóra en tímabilið framundan?
„Við erum með gott lið og því líst mér mjög vel á veturinn og Yngva sem þjálfara. Það var ekki létt að fara frá Fjölni enda er það eina félagið sem ég hef verið í á Íslandi og ég á fullt af vinum þar. Ég gat samt ekki hugsað mér að spila í 1. deild og eftir að hafa verið í Bandaríkjunum í tvö ár er ég rosalega spennt fyrir því að spila aftur í úrvalsdeildinni,“ sagði Bergþóra en það er þó smá tregi við vistaskiptin.
„Mér líður alltaf vel í Dalhúsum og á örugglega eftir að sakna þess að æfa og spila þar.“
Mynd/ Karl West
Fylgstu með Karfan.is á Twitter: