Í gær fórum við hér á Karfan.is yfir A-riðil EuroBasket 2013 og í dag er komið að B-riðlinum sem er sannkallaður austantjalds-riðill.
Í B-riðli leika Bosnía, Litháen, Makedónía, Svartfjallaland, Serbía og Lettland. Svartfjallaland og Bosníumenn unnu sinn riðil í undankeppninni, Litháar koma beint inn ásamt Makedóníu eftir gott gengi á síðasta móti. Serbar náðu þriðja sætinu í okkar riðli í undankeppninni og fóru áfram (4 bestu þrjiðju sætin gáfu sæti á EM) og Lettar léku sama leik í öðrum riðli.
Fyrirfram eru Svartfjallaland, Litháar, Serbar og Makedónía líklegastir til að ná efst þremur sætunum og fara áfram í keppninni og er ljóst að eitt land mun sitja eftir með sárt ennið.
Bosnía tapað aðeins tveimur leikjum í undankepninni. Liðin hafa verið að leika æfingaleiki í sumar og taka þátt í mótum til að undirbúa sig. Þar hafa Serbar og Makedónía komið vel út og sigrað á sitthvoru mótinu. Svartfellingar verða án Nikola Pekovic, sem samdi í sumar áfram við Minnesota Timberwolves, og munar um minna. Þess má geta að íslenska karlalandsliðið sigraði bæði lið Svartfellinga og Makedóníu á æfingamótinu í Kína í sumar og verður fróðlegt að sjá gengi þeirra á mótinu nú.
Topp 3 spá Karfan.is í B-riðli: Serbía, Litháen og Makedónía.
Fylgstu með!
Bo McCalebb er án efa með betri bakvörðum mótsins, var í einu orði frábær á EM2011 þar sem Makedónía hafnaði í 4. sæti og var valinn í 5-manna úrvalslið mótsins ásamt Parker, Navarro, Gasol og Kyrilenko. Ef Makedónía ætlar að fylgja eftir góðum árangri á síðasta móti þarf hann að eiga gott mót.
Hinn ungi miðherji Litháa, Jonas Valanciunas, er leikmaður sem áhugavert verður að fylgjast með en hann tekur að sér stærra hlutverk og aukna ábyrgð í ár með landsliðinu. Einnig má ekki gleyma Milos Teodosic, Serbíu, sem hefur verið valinn besti leikmaður Evrópu, og er galdramaður með boltann þegar sá gállinn er á honum.
Mynd/ Bo McCalebb mun vafalítið láta vel fyrir sér finna!