Í dag er komið að því að rúlla yfir C-riðil EuroBasket sem að mati karfan.is er sterkasti riðillinn á mótinu, en þar rekur hver stórþjóðin aðra í körfubolta og gríðarleg barátta um topp þrjú sætin framundan.
Riðilinn skipta Pólland, heimamenn í Slóveníu, Evrópumeistarar Spánar, Króatía, Tékkland og Georgía.
Lið Spánar verða að teljast sigurstranglegir fyrir upphaf mótsins enda valinn maður þar í hverri leikstöðu, ríkjandi Evrópumeistarar, og hafa ekki tapað leik í allt sumar í undirbúningi sínum fyrir mótið. Í ár er þó enginn Serge Ibaka né Pau Gasol sem veikir hjá þeim teiginn.
Pólverjar héldu EM2009 og áttu gott mót og hafa verið að stimpla sig inn sem ein af sterkustu þjóðum Evrópu. Þeir urðu efstir í sínum riðli og geta náð góðum árangri í Slóveníu.
Slóvenía hafnaði í 4. sæti 2009 og 7. sæti 2011 í Litháen. Nú leika þeir á heimavelli fyrir framan körfuboltasjúka aðdáendur sína og gestagjafarnir fá oft aukakraft við það og eru því líklegir til afreka enda með góða leikmenn innanborðs.
Georgía á erfitt verkefni fyrir höndum sem fyrirfram sísta liðið í riðlinum: Lið Tékklands hefur verið að bæta sig milli ára og gætu sett stein í götu andstæðinga sinna ef þeir missa einbeitinguna.
Topp 3 spá Karfan.is í C-riðli: Spánn, Króatía og Slóvenía fara áfram úr riðlinum.
Fylgstu með!
Hinn ungi Dario Saric fór hamförum í fyrra þegar U18 ára lið Króatíu urðu evrópumeistarar og það gerði hann einnig árið 2010 þegar sama lið varð meistari í U16. Í bæði skiptin var hann valinn MVP mótsins, geri aðrir betur. Nú er hann kominn á stóra sviðið og verður fróðlegt að sjá hann gegn bestu leikmönnum Evrópu.
Mynd/ Dario Saric