Keflavík lagði Breiðablik í kvöld í Subway deild karla, 126-80. Eftir leikinn er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 22 stig á meðan að Breiðablik er í 7. sætinu með 14 stig.
Fyrir leik
Liðin höfðu í eitt skipti áður mæst í vetur. Þann 28. október vann Keflavík góðan endurkomusigur á Blikum í Smáranum, 106-107.
Þar sem að leikur kvöldsins var frestaður frá því fyrr í mánuðinum gat Keflavík ekki notað bandarískan leikmann sinn Mustapha Heron, en hann fékk ekki leikheimild fyrr en þann 10. febrúar.
Leikurinn í kvöld var sá þrettándi sem liðin mætast í deild í Keflavík síðan árið 1988 og hefur Keflavík nú haft sigur í tólf þeirra. Eini sigur Blika í Keflavík kom þann 31. október 2008, 86-107.
Gangur leiks
Leikurinn fer nokkuð fjörlega af stað. Liðin skiptast á snöggum áhlaupum, en þegar sá fyrsti er á enda er Keflavík 8 stigum yfir, 35-27. Keflavík gengur svo enn frekar á lagið í öðrum leikhlutanum. Koma forystu sinni í 25 stig áður en liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 74-49.
Stigahæstur fyrir heimamenn í fyrri hálfleiknum var Dominykas Milka með 18 stig á meðan að Everage Richardson dró vagninn fyrir Blika með 13 stigum.
Keflavík heldur uppteknum hætti í upphafi seinni hálfleiksins. Bæta enn við forystu sína í þriðja leikhlutanum og eru 32 stigum yfir fyrir þann fjórða, 98-66. Keflavík í raun tekur ekki fótinn af bensíngjöfinni fyrr en um 3 mínútur eru eftir af leiknum. Lokaniðurstaðan mjög svo öruggur 46 stiga sigur heimamanna, 126-80.
Tölfræðin lýgur ekki
Keflavík átti frákastabaráttu leiksins nokkuð örugglega, taka 57 fráköst á móti 37 fráköstum Breiðabliks.
Atkvæðamestir
Darius Tarvydas var bestur í liði Keflavíkur í kvöld, skilaði 29 stigum, 11 fráköstum og 5 stoðsendingum á aðeins rúmum 20 mínútum spiluðum. Honum næstur var Dominykas Milka með 30 stig og 6 fráköst.
Fyrir Blika var Everage Richardson atkvæðamestur með 20 stig og þá bætti Árni Elmar Hrafnsson við 13 stigum og 4 fráköstum.
Hvað svo?
Keflavík á leik næst þann 17. febrúar gegn Þór Akureyri í Blue Höllinni á meðan að Blikar eiga leik degi seinna þann 18. febrúar gegn Íslandsmeisturum Þórs í Þorlákshöfn.