spot_img
HomeFréttirÍA semur við Roderick Wilmont

ÍA semur við Roderick Wilmont

Körfuknattleiksfélag ÍA hefur samið við bandaríska körfuknattleiksmanninn Roderick Wilmont um að leika með félaginu á komandi leiktíð. Hann er fæddur á því herrans ári 1983 og hefur að öllum líkindum einhver trix í reynslubankanum sem munu nýtast Skagamönnum vel á komandi leiktíð. 
 
Á heimasíðu Skagamanna segir ennfremur:
 
“Við erum virkilega spenntir fyrir þessum leikmanni. Roderick er gríðarlega fjölhæfur leikmaður sem getur spilað margar stöður á vellinum en er bakvörður að upplagi. Kappinn mælist 193 cm á hæð og þótti vega 98 kg einhver tíman þegar hann var mældur og eru þetta alveg tölur sem við sættum okkur við” segir Hannibal Hauksson formaður Körfuknattleiksfélags ÍA.
 
Ferill Roderick er langur og skemmtilegur, hann lék með Indiana háskólaliðinu á árunum 2003 – 2007 og var á útskriftar ári sínu með 12,6 stig að meðaltali í leik, tók 5,8 fráköst og setti niður 39,5% 3ja stiga skota sinna.
Þegar háskólagöngunni lauk lék okkar maður með Fort Wayne Mad Ants og Erie Bay Hawks í NBA-D –League. Á þessum árum var Roderick nálægt því að komast í NBA en hann lék 3 leiki með New York Knick í NBA Summer League tímabilið 2007 – 2008 og 4 leiki með Milwaukee Bucks tímabilið á eftir í sömu deild.
Roderick er ekki ókunnur því að spila í Evrópu en hann hefur spilað með Napoli J. News á Ítalíu, Aliaga í Tyrklandi og nú síðast með franska liðinu Evreux tímabilið 2011 – 2012.
 
“Það er því allt útlit fyrir að það verði hvalreki við strendur skipaskag á næstu dögum en það sem rak á fjörur okkar í fyrra var ekki alveg það sem við bjuggumst við. En við erum að vinna í að bóka flug og sjáum hvað setur í þeim efnum en eitt er víst að herra Wilmont verður mættur í ÍA treyjuna 10. október í Hveragerði” sagði Hannibal að lokum en þá er fyrsti leikur liðsins í 1. deildinni þetta tímabilið.
 
Fréttir
- Auglýsing -