Keflvíkingar munu mæta KR eða Grindavík í úrslitum Lengjubikarkeppninnar eftir stóran og sterkan 96-70 sigur á Snæfell í Ljónagryfjunni í kvöld. Keflvíkingar kláruðu dæmið snemma og sigldu sigrinum örugglega í höfn. Michael Craion og Darrell Lewis fóru fyrir Keflvíkingum en Hafþór Ingi var stigahæstur í liði Snæfells.
Hólmarar horfðu á Keflavík komast í 10-2 og svo 24-5 án þess að þeir rauðklæddu fengju rönd við reist. Keflvíkingar með þá Arnar Frey, Carion og Lewis fremsta í flokki hreinlega kjöldrógu Snæfellinga í fyrsta leikhluta. Craion með 12 stig í fyrsta og Lewis 10. Keflvíkingar voru miklu betri á öllum sviðum svo Hólmarar reyndu svæðisvörn undir lok fyrsta leikhluta og var það varnarafbrigði mun betra en maður á mann vörnin sem Keflavík hafði rassskellt á beran bossann lungann úr leikhlutanum.
Keflvíkingar voru ekkert að slaka á bensíngjöfinni í öðrum leikhluta. Menn komu sterkir inn af bekknum og miklu meiri stemmning og leikgleði var í herbúðum Keflvíkinga heldur en Hólmaramegin sem voru einfaldlega með buxurnar á hælunum. Keflvíkingar voru afar þéttir varnarmegin og einhæfar sóknir Hólmara rötuðu sjaldnast upp að körfu og rauðir hreinlega smeykir við þann líkamlega dans sem Keflavík var að bjóða upp í. 11 af 12 leikmönnum Keflavíkur skoruðu í fyrri hálfleik, Ragnar Gerald Albertsson kom sterkur af bekknum hjá Keflvíkingum og átti flotta spretti en það var enginn að slá taktinn í liði Hólmara. Leikstjórnandinn þeirra Jamarco var algerlega heillum horfinn og kom engu skipulagi á leik sinna manna sem voru undir 58-30 í hálfleik.
Magnaður fyrir hálfleikur hjá Keflvíkingum þar sem baráttan og léttleikinn voru í fyrirrúmi. Darrell Lewis var með 13 stig í hálfleik og Michael Craion 12 en hjá Snæfell var Stefán Karel Torfason með 7 stig.
Snæfell opnaði síðari hálfleik með 8-0 dembu og það fór að rofa til í leik liðsins. Keflvíkingar voru ekki eins stemmdir og í fyrri hálfleik og brugðu snemma á það ráð að demba sér í svæðisvörn, hún var einfaldlega ekki jafn góð né grimm eins og maður á mann vörn þeirra í fyrri hálfleik og því tókst Hólmurum að klóra sig nærri. Skotin fóru að detta og rauðir fundu stöku sinnum glufurnar upp að Keflavíkurkörfunni og Stefán Karel Torfason sýndi sterka kafla en á þó enn nokkuð í land til að hafa hemil á jöxlum eins og Craion. Snæfell vann þriðja leikhluta 17-23 og Keflvíkingar leiddu því 75-53 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og ljóst að ansi margt þyrfti að fara úrskeiðis svo Keflvíkingar létu svona myndarlega forystu af hendi.
Fjórði leikhluti varð aldrei spennandi, Keflvíkingar voru einfaldlega nokkrum tröppum sterkari en Snæfell í kvöld. Lykilmenn Hólmara voru heillum horfnir og nokkuð ljóst að enduruppgötva þarf gleðina í Stykkishólmi. Lokatölur reyndust 96-70 Keflavík í vil þar sem Michael Craion og Darrell Lewis voru atkvæðamestir en heilt á litið var þetta sterkur liðssigur. Hafþór Ingi Gunnarsson lauk leik með 12 stig hjá Hólmurum sem geta þó litið á björtu hliðarnar, þeir geta bara batnað fram að Íslandsmótinu.
Keflavík-Snæfell 96-70 (30-12, 28-18, 17-23, 21-17)
Keflavík: Darrel Keith Lewis 22/6 fráköst, Michael Craion 18/12 fráköst, Ragnar Gerald Albertsson 11, Valur Orri Valsson 10/11 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 10, Gunnar Ólafsson 6/4 fráköst, Guðmundur Jónsson 5/4 fráköst, Andri Daníelsson 5, Þröstur Leó Jóhannsson 5, Arnar Freyr Jónsson 2/5 fráköst/6 stoðsendingar, Almar Stefán Guðbrandsson 2, Hafliði Már Brynjarsson 0.
Snæfell: Hafþór Ingi Gunnarsson 12, Zachary Jamarco Warren 11/4 fráköst/7 stoðsendingar, Stefán Karel Torfason 11/9 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 9, Jón Ólafur Jónsson 7, Finnur Atli Magnússon 6/5 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 5/4 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 4/4 fráköst, Sveinn Arnar Davíðsson 3, Þorbergur Helgi Sæþórsson 2, Snjólfur Björnsson 0, Kristinn Einar Guðmundsson 0.