spot_img
HomeFréttirSóknin sem Spurs töpuðu titlinum á

Sóknin sem Spurs töpuðu titlinum á

Körfubolti er herkænskuleikur. Þeir þjálfarar sem hafa náð hvað mestum árangri í íþróttinni vita þetta. Hröð og klók ákvarðanataka í lok leikja getur skipt sköpum.
 
Í leik 6 var staðan 3-2 fyrir San Antonio Spurs og þurfti því sigur í þeim leik til að klára dæmið. Þremur stigum yfir þegar um 15 sekúndur voru eftir af leiknum voru Spurs í vörn gegn örvæntingarfullu Miami Heat liði. Bæði lið voru í skotrétti, þannig að villa frá hvoru liðinu hefði sent hitt liðið á línuna til að skjóta tveimur skotum. LeBron James hafði farið á kostum í fjórða leikhluta eftir að hafa misst svitabandið af höfðinu á sér – eins og frægt er orðið. Það var nánast vitað mál hvað Heat myndu gera: Skjóta þriggja stiga skoti til að jafna leikinn.
 
Hvaða valkostir standa Gregg Popovich til boða á þessari stundu?
 
1. Spila þétta maður á mann vörn og reyna að koma í veg fyrir að LeBron fái opið skot og stíga út til að ná frákastinu.
2. Setja varnarfókusinn á þriggja stiga skotin til að útiloka þau en gefa teiginn eftir.
3. Brjóta strax á leikmanni Heat og senda hann á línum til að taka tvö skot.
 
Popovich og Spurs völdu fyrsta valmöguleika en spiluðu góða svæðisvörn sem verður til þess að LeBron fær tvo menn á móti sér í skotinu. Skotið geigar en Chris Bosh sem hafði sett hindrun fyrir LeBron gleymist í látunum og nær frákastinu. Hann kemur boltanum á Ray Allen, sem er alltaf líklegur til stórverka við þessar aðstæður, jafnar leikinn fyrir Heat. Heat vann svo í framlengingu eins og allir vita og vann svo titilinn í sjöunda leiknum með allan meðbyr í bakið.
 
 
Menn hafa kvartað yfir dómgæslunni í leiknum, en það er aukaatriði. Framkvæmdin á þessari sókn gerði útslagið, eins og vinir mínir hjá Hardwood Paroxysm hafa bent á. Þarna tapaðist meistaratitill á því að menn voru ekki að stíga út eftir skot.
 
Ef við skoðum annan möguleikann þá lokar hann á þriggja stiga skotið en gefur tveggja stiga, en sú framkvæmd étur af klukkunni og getur gefið eitt stig í forystu. Hún getur hins vegar ekki tryggt það að sóknarliði nái ekki að henda upp þriggja stiga skoti.
 
Þriðji möguleikinn hins vegar gerir það. Hann tryggir, ef brotið er fyrir skot, að sóknarliðið fái aðeins tvö vítaskot sem þarf að setja niður til að eygja einhvern möguleika.
 
Skoðum þennan möguleika út frá leikjafræði með því að setja upp ákvörðunartré sem gefur 1 stig fyrir sigur og 0 fyrir tap og stigin vegin með líkindum á því að skotin fari niður. Líkindin eru gefin út frá meðaltali nýtingar þeirra leikmanna, sem voru inni á vellinum í þessari sókn, í gegnum alla seríuna. Við sjáum að “brjóta” leiðin gefur af sér tryggt 1 stig en þar sem framlenging gefur aðeins 50% líkur á sigri lækkar skorið fyrir “brjóta ekki” leiðina.
 
 
Þetta er viðhöfð venja hérna í Evrópu en Gregg Popovich hefur verið tregur að taka þetta upp – og þá mögulega á kostnað liðsins.
Fréttir
- Auglýsing -