spot_img
HomeFréttirValssigurinn aldrei í hættu

Valssigurinn aldrei í hættu

Meistaraefni Vals lögðu KR í Reykjavíkurslag fyrstu umferðar Domino´s deildar kvenna í kvöld. Val var í gær spáð sigri í Domino´s deildinni en KR sett í 6. sæti deildarinnar. Lokatölur í Vodafonehöllinni í kvöld voru 77-62 Valskonum í vil. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir fór fyrir liði KR í kvöld með 25 stig, 17 fráköst og 7 stolna bolta en Ragna Margrét Brynjarsdóttir gerði 13 stig og tók 8 fráköst í Valsliðinu.
 
 
KR-ingar mættu vængbrotnir til leiks ef svo má að orði komast þar sem Helga Einarsdóttir er með rifinn liðþófa og ekki væntanleg á parketið fyrr en í nóvember og Bergdís Ragnarsdóttir er meidd í baki og óvíst hvort hún nái að spila fyrir áramót. Það er því höggvið ansi myndarlegt skarð í KR-hópinn.
 
Ragna Margrét Brynjarsdóttir opnaði stigareikning Vals þessa leiktíðina og gerði fyrstu stigin úr stökkskoti í teignum. Valskonur voru ferskari á upphafsmínútunum og leiddu 23-17 eftir fyrsta leikhluta. Sigrún Ámundadóttir var beitt í liði KR en bandaríski leikmaður þeirra röndóttu, Kelli Thompson, hafði fremur hægt um sig og virtist ekki í nægilega sterku formi.
 
Valskonur leiddu 42-30 í hálfleik þar sem Guðbjörg Sverrisdóttir setti niður skot frá miðju um leið og hálfleiksflautan gall en karfan dæmd ógild þar sem tíminn var búinn og það alveg kórréttur dómur…en flott tilþrif engu að síður.
 
Unnur Lára Ásgeirsdóttir átti góða spretti í fyrri hálfleik hjá Val með 8 stig en Sigrún Ámundadóttir var með 13 í liði KR. Átta liðsmenn Valskvenna skoruðu í fyrri hálfleik og dreifðist spilatíminn vel og framlagið af bekknum gott. Dýptin er töluverð í Vodafonehöllinni og eflaust vopn sem Ágúst Björgvinsson mun reyna að nýta til fullnustu í deild sem telur 28 umferðir.
Í þriðja leikhluta lét Ragna Margrét fyrir sér finna í Valsliðinu og var kominn með 11 stig eftir þriðja leikhluta en Sigrún Sjöfn var á sama tíma dottin í tvennuna með 16 stig og 13 fráköst í liði KR. Valskonur héldu KR fjarri og leiddu 60-47 fyrir fjórða og síðasta leikhluta en í þeim þriðja var Jaleesa Butler mikið utan vallar enda var tilfinningin ávalt þannig að Valur væri við stýrið og ætlaði sér ekkert úr bílstjórasætinu. Að sama skapi var KR aldrei langt undan en það vantaði þor í að brjóta ísinn og berja sig upp að hlið Valskvenna.
 
KR átti möguleika á því að minnka muninn í sex stig í fjórða leikhluta og gera leik úr lokasprettinum en Valur skipti þá um gír og kláraði verkefnið 77-62. Liðssigur þar sem allir komu við sögu í liði Vals og tíu leikmenn náðu að skora. Valskonur eru með hávaxið lið sem bakaði KR nokkur vandræði enda vann Valur frákastabaráttuna 48-39 og tóku bleikar 17 sóknarfráköst.
 
 
Valur-KR 77-62 (23-17, 19-13, 18-17, 17-15)
 
Valur: Ragna Margrét Brynjarsdóttir 13/8 fráköst, Jaleesa Butler 12/10 fráköst/6 stoðsendingar, Guðbjörg Sverrisdóttir 10/5 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 9/5 fráköst/6 stoðsendingar, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 8, María Björnsdóttir 7, Rut Konráðsdóttir 7, Elsa Rún Karlsdóttir 4, Hallveig Jónsdóttir 4, Þórunn Bjarnadóttir 3, Ragnheiður Benónísdóttir 0/5 fráköst, Sara Diljá Sigurðardóttir 0.
KR: Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 25/17 fráköst/7 stolnir, Bergþóra Holton Tómasdóttir 11/5 fráköst, Kelli Thompson 10/7 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 8, Sara Mjöll Magnúsdóttir 4, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 2, Rannveig Ólafsdóttir 2, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0, Perla Jóhannsdóttir 0, Ína María Einarsdóttir 0, Sólrún Sæmundsdóttir 0, Anna María Ævarsdóttir 0.
Dómarar: Davíð Kristján Hreiðarsson, Einar Þór Skarphéðinsson
  
Fréttir
- Auglýsing -