spot_img
HomeFréttirÆtlað silfurlið eitt án stiga

Ætlað silfurlið eitt án stiga

Nú er tveimur umferðum lokið í Domino´s deild kvenna og öll lið í deildinni utan eitt komin með stig eftir þessa tvo leiki. Athygli vekur að sterkt lið Hauka er eitt og án stiga á botni deildarinnar en í spá KKÍ fyrir mót var Haukum spáð 2. sæti í deildinni!
 
 
Haukar hafa mætt Suðurnesjaliðunum Keflavík og Njarðvík í fyrstu tveimur umferðunum, fyrst tveggja stiga tap gegn Keflavík og svo 14 stiga tap gegn Njarðvík í gær. Að sama skapi var Keflvíkingum, ríkjandi meisturum, spáð 5. sæti í deildinni og Njarðvík spáð falli. Já, enginn er spámaður í sínu föðurlandi.
 
Lele Hardy liðsmaður Hauka er þó sem fyrr áberandi í tölfræðinni, er efst eftir tvær umferðir í framlagi með 33 framlagsstig að meðaltali í leik. Hún er efst í stigaskorinu með 28,5 stig á leik og efst í stoðsendingunum með 7,5 slíkar á leik. Hardy trónir einnig á toppi frákastabaráttunnar með 18,0 fráköst að meðaltali í leik svo það stendur ekki á henni að Haukar hafi tapað tveimur fyrstu mótsleikjunum.
 
Haukar hafa svo eflaust ekki sungið sitt síðasta ef við þekkjum Hafnarfjarðarkonur rétt, í gær voru þær Guðrún Ósk Ámundadóttir og Íris Sverrisdóttir að fikra sig áfram á parketinu eftir löng og erfið meiðsli. Endurkoma þeirra inn í lið Hauka og hvernig þeim tekst til í næstu leikjum mun skipta miklu. 
Fréttir
- Auglýsing -