Magnús Þór Gunnarsson, fyrirliði Keflavíkurliðsins, handarbrotnaði á æfingu liðsins í gær og verður líklega frá í 6-8 vikur vegna þessa. Um er að ræða skothendi kappans og sömu hendi og þar sem hann hefur fingurbrotnað sl. tvö ár. Ljóst er að um mikið áfall er að ræða fyrir Keflavíkurliðið. Á næstu dögum kemur í ljós hvort Magnús muni þurfa að fara í aðgerð vegna brotsins en hann mun hitta handarsérfræðing sem mun skera úr um málið. www.keflavik.is greinir frá.
Á heimasíðu Keflavíkur segir einnig:
Við óskum Magnúsi Þór skjótum bata og hlökkum til að sjá hann á gólfinu á ný. Eitt geta stuðningsmenn Keflavíkur huggað sig við en það er að kappinn er mikill keppnismaður og því ljóst að hann mun ekki vera frá mínútu lengur en þörf krefur. Þar til hann snýr aftur á gólfið munu aðrir leikmenn taka við keflinu og fá því nokkrir leikmenn tækifæri til að láta ljós sitt skína og sanna hið fornkveðna að maður komi í manns stað.
Fylgstu með Karfan.is á Twitter: