Vesturbæingar fengu Breiðhyltinga í heimsókn í DHL-höllina í kvöld í annarri umferð Dominos-deildarinnar. Bæði lið báru sigur úr býtum í fyrstu umferð, KR-ingar unnu góðan sigur í Grindavík og ÍR-ingar höfðu betur í baráttuleik gegn Sköllum.
Gestirnir héldu í við heimamenn framan af leik. Atupem byrjaði sterkt og kom KR-ingum í bílstjórasætið. ÍR-ingar fylgdu þó heimamönnum fast á eftir með Claessen og Björgvin í fararbroddi. Einnig má segja að KR-ingar hafi lagt sitt af mörkum við að halda ÍR-ingum nálægt með því að grýta boltanum ítrekað í auglýsingaskiltin sem er alla jafna vond ákvörðun. KR-ingar leiddu þó 27-18 eftir fyrsta með góðum lokakafla og djúpum ,,buzzer” tvisti frá Magna.
Svipað var upp á teningnum í öðrum leikhluta. Ekki má taka það af ÍR-ingum að þeir sýndu mikla seiglu og áttu ágæta spretti. KR-ingar voru þó kannski sjálfum sér verstir og héldu áfram að vera óþarflega gestrisnir og sýndu auglýsingaskiltunum óþarfa hörku með því að henda boltanum í þau eða hlaupa þau niður. Aftur náðu heimamenn góðum lokakafla og höfðu sæmilegt forskot í leikhléi, 52-38.
Jafnræði var með liðunum framan af í þriðja leikhluta en smátt og smátt mátti ljóst vera að KR-ingar myndu sigla þessu rólega í höfn. Sóknarleikur ÍR-inga var ekki upp á marga fiska, Claessen var staddur í einhverjum ofurmannaheimi og átti mörg mjög vafasöm skot og Terry var á sama tíma í öðrum leik sem snýst um að fela sig. Jafnframt var Hjalti kominn með 4 villur og dýptin ekki mikil hjá gestunum. KR-ingar bættu svolítið við forskotið og leiddu 79-58 eftir þriðja.
Fjórði leikhluti varð aldrei spennandi og ÍR-ingar ekki líklegir til áhlaups. Gestirnir náðu þó að laga stöðuna lítið eitt á ,,ruslamínútunum” en 96-83 sigur KR-inga í höfn.
Breidd KR-inga naut sín í kvöld en fremstir meðal jafninga var Shawn Atupem með 19 stig og 8 fráköst og Brynjar lauk leik með 18 stig. Hjá gestunum voru þeir Matthías og Sveinbjörn með 18 stig. Björgvin átti einnig ágætan leik með 14 stig og 12 fráköst. Terry endaði með 14 stig en hann þarf að taka meira til sín ef vel á að fara hjá ÍR-ingum.
Viðbrögð þjálfara liðanna eftir leik:
Örvar Þór Kristjánsson þjálfari ÍR
Þið hénguð í þeim lengi vel en hvað gerðist svo?
,,Við spiluðum bara lengst af mjög fínan bolta, KR-ingarnir eru bara með það mikil gæði að þegar við slökuðum aðeins á þá voru þeir fljótir að refsa. Þeir spiluðu betur en við bara á einhverjum smá kafla.”
Eigið þið meira inni?
,,Jájá auðvitað getum við betur og þeir líka, bæði liðin eiga helling inni, það er náttúrulega stutt liðið á mótið, en ég er bara mjög ánægður með mitt lið. “
Finnur Stefánsson þjálfari KR
Þið tapið mörgum boltum í fyrri hálfleik og spilið kannski ekki mjög vel. Hvað breyttist í seinni hálfleik?
,,Þetta var náttúrulega fyrsti heimaleikur og það er alltaf ákveðinn spenningur sem tengist því og menn vildu sýna sitt besta fyrir framan okkar áhorfendur. Við róuðum okkur aðeins niður í lok fyrri hálfleiks og náðum 14 stiga mun í hálfleik og náum svo að nýta okkur okkar styrkleika í byrjun seinni hálfeiks.”
Sýnir þetta getumuninn á liðunum að spila frekar illa en hafa þó 14 stiga forskot í hálfleik?
,,Jájá, við vorum kannski að reyna full erfiðar sendingar í fyrri hálfleiknum, en þetta voru kannski ekki tapaðir boltar sem þeir voru að neyða okkur í heldur lélegar ákvarðanir. Við viljum spila hraðan bolta en við erum ekki alveg komnir á þann stað að geta keyrt eins og við viljum. Tíminn mun leiða í ljós hvernig það mun ganga en þegar mest á reynir verður það í lagi.”
Umfjöllun/KV
Mynd/ Axel Finnur – Brynjar Þór Björnsson sækir að ÍR vörninni í kvöld