Keflavík hefja tímabilið í ár á sömu nótum og í fyrra en þær eru eftir fjórar umferðir enn ósigraðar og í dag voru það Blómastúlkurnar úr Hveragerði sem urðu fórnarlömbin í TM-höllinni. Keflavík sigraði leikinn79:63 og var það loka fjórðungurinn sem gerði endanlega útslagið.
Leikurinn var jafn framan af og Hamar sem fyrir tíðina var spáð 7. sæti deildarinnar mættu grimmar til leiks og ætluðu sér lítið annað en sigur í þessum leik og sýndu meisturunum og gestgjöfum sínum litla miskunn. En þó voru Keflavíkurstúlkur alltaf aðeins með yfirhöndina í leiknum þó munurinn hafi aldrei verið stór í fyrri hálfleik. Það voru svo gestirnir sem tóku flottan endasprett í fyrri hálfleik og leiddu með 1 stigi þegar gengið var til búningsherbergja.
Andy Johnston þjálfari Keflvíkinga hefur tekið sínar stúlkur í hárblásturs meðferð í hálfleik því þær komu tvíelfdar til leiks og vörn þeirra hertist til muna þó svo að sóknarleikurinn hafi kannski ekkert verið sá myndarlegasti. En hann dugði þó og þar fór fremst Bryndís Guðmundsdóttir sem endaði leik í dag með 29 stig fyrir Keflavík.
Síðasti fjórðungur leiksins var svo keim líkur þeim þriðja. Keflavík héldu allt til loka leiks áfram sinni góðu vörn og Hamar voru í stökustu vandræðum að skora. Svo fór að Keflavík vann leikinn nokkuð sannfærandi að lokum og verðskuldað. Hamar liðið má samt eiga það að þær börðust allt til loka og nokkuð ljóst að þetta Hamars lið getur strítt öllum þeim “stóru” og á eftir að gera gott betur en það í vetur.