Valur fengu Hauka í heimsókn í 5. umferð Dominosdeildar kvenna í dag. Haukar enduðu á því að vinna sannfærandi 66-85 sigur þar sem að Lele Hardy átti enn einn stórleikinn.
Ekkert er að ganga upp hjá Val þessa daganna og var þetta þeirra fjórða tap. Það virkaði töluverð deyfð yfir öllu liðinu strax fá fyrstu mínútu og er það örugglega mikið umhugsunarefni fyrir Ágúst Björgvinsson. Haukar eru hins vegar komnar með tvo sigurleiki í röð.
Annars var Valur án hallveigar Jónsdóttur sem að brotnaði á litla fingur hægri handar á æfingu í vikunni. Þá voru Haukar án Gunnhildar Gunnarsdóttur sem þarf greinilega lengri tíma til að jafna sig á tognuninni sem hún varð fyrir í 3. umferð.
Byrjunarlið Vals: Jaleesa Butler, Þórunn Bjarnadóttir, Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir og María Björnsdóttir.
Byrjunarlið Hauka: Auður Íris Ólafsdóttir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Lele Hardy, Dagbjört Samúelsdóttir og Jóhanna Björk Sveinsdóttir.
Ragna Margrét Brynjarsdóttir byrjaði vel fyrir Val, skoraði fyrstu 5 stig þeirra. Hún var reyndar allt í öllu í sóknarleik þeirra og átti 6 af fyrstu 7 skotum þeirra. Margrét Rósa Hálfdanardóttir vildi ekki vera síðri og skoraði hún fyrstu 5 stig Hauka. Fyrsti leikhlutinn var annars mjög jafn framan af og lítið skorað. En þá komu Guðbjörg Sverrisdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir sterkar inn og stálu sitthvorum boltanum og skoruðu og komu Val 12-7 yfir. En Haukar svöruðu svo með tveimur þristum og komust yfir 12-15. Þá kveiknaði aldeilis í Lele Hardy og skoraði hún 9 stig í röð og leiddu Haukar því 12-19 að loknum fyrsta leikhluta. Ólíkt fyrri umferðum mættu Haukar loksins liðið sem gat stigið þær út og í fyrsta skiptið á tímabilinu voru þær með færri fráköst en andstæðingurinn að loknum fyrsta leikhluta og aðeins með 1 sóknarfrákast.
Haukar byrjuðu annan leikhlutann af krafti og setti Lovísa Björt Henningsdóttir þrist til að opna stigakorið í leikhlutanum. Valur vaknaði svo til lífsins í sókninni og átti nokkrar vel útfærðar sóknir, eitthvað sem algjörlega vantaði í fyrsta leikhluta, en vörnin var ekki komin í gírinn og hleyptu þær Haukum of auðveldlega að körfunni. Valur tóku svo 8-2 kafla og minnkuðu muninn í 26-28. Hardy og Margrét Rósa smelltu þá niður sitt hvorum þristnum og stöðvuðu áhlaup Vals. Haukar voru svo sterkari aðilinn og kláruðu leikhlutann á 15-4 kafla.
Stigahæstar í hálfleik voru Ragna Margrét með 7 stig og 5 fráköst fyrir Val og Lele Hardy með 22 stig og 12 fráköst fyrir Hauka.
Það gerðist ekki margt frásagnarvert í þriðja leikhlutanum, liðin skiptist á að skora og var mikið jafnræði í leikhlutanum. Helst ber kannski að nefna hvað það kom á óvart að Valur kom ekki inn í seinni hálfleikinn af neinum krafti þrátt fyrir væntanlega hárblásturs meðferð frá Ágústi Björgvinsyni í hálfleik.
Fjórði leikhlutinn fór hægt af stað en Valur var að spila góða vörn. Hardy var farin að safna stoðsendingum og átti hún mjög flotta blindsendingu á Lovísu sem að skoraði úr sniðskotinu, 58-67 fyrir Hauka. Eitthvað hefur Kristrún verið orðin pirruð því hún fékk dæmdar á sig 4 villur á aðeins 80 sekúndum, þar af eina óíþróttamannslega, og þurfti því að víkja af velli þegar rúmar 5 mínútur voru til leiksloka. Það leið ekki ein mínúta áður en áfall númer tvo reið yfir Val, en þá fékk Ragna Margrét sína fimmtu villu. Valur því búnar að missa tvo best leikmenn sína í dag útaf. Ekki það að Valur hafi verið að spila af mikilli ákefð á þessu tímapunkti en það litla sem þær höfðu hvarf algjörlega eftir þetta. Það var því ekki erfitt fyrir Hauka að halda áfram að bæta í og tryggja sér sigurinn.
Mynd/ [email protected] – Lele Hardy var óstöðvandi í dag