spot_img
HomeFréttirNBA hefst eftir tvo daga!

NBA hefst eftir tvo daga!

Hannes Birgir Hjálmarsson heldur áfram að spá í spilin fyrir NBA deildina sem hefst eftir tvo daga. Þegar höfum við farið yfir Austurdeildina svo nú er komið að Vesturdeildinni og við hefjum leik í suðvesturriðli.
 
VESTURDEILD
 
Suðvesturriðill
Það verður athyglisvert að fylgjast með Suðvesturriðlinum í vetur, San Antonio og Houston, Memphis eru öll hörku lið og liðið með vinalega nafnið – New Orleans Pelicans – sýnd veiði en ekki gefin! Ég hallast að því að Houston liðið nái með naumindum efsta sætinu í riðlinum eftir hörku baráttu við Spurs og Grizzlies.
 
1. Houston Rockets
Houston fékk til sín einn sterkasta miðherja NBA deildarinnar Dwight Howard í sumar eftir frekar dapran árangur með Lakers liðinu (sem má þó skirfast að einhverju leyti á meisli Howards og Kobe Bryant) og ætti hann að geta fallið vel inn í leikstíl Houston liðsins. Jeremy Lin og James Harden eru stórgóðir og skemmtilegir leikmenn og ættu þessir þrír leikmenn að tryggja um 60 stig í leik! Kevin McHale þjálfari liðsins á skemmtilegt verkefni fyrir höndum í vetur. Howard er einnig frábær varnarmiðherji og ef aðrir leikmenn smitast af honum í vörninni verður liðið ekki auðunnið en breiddin í liðinu er líklega of lítil til að ná langt í úrslitakeppninni. Liðið nær 56 sigrum og verður þvi einum leik fyrir ofan San Antonio.
 
2. San Antonio Spurs
San Antonio liðið rúllar áfram eins og gömul og góð díselvél sem hefur verið vel við haldið langt umfram síðasta söludag! Þjálfarinn Gregg Popovich er einn sá allra besti í deildinni og gamlar kempur eins og Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili eru enn andlit liðsins sem lék til úrslita í NBA deildinni á síðust leiktíð. Vinsælt er að afskrifa liðið en alltaf tekst því að komast lengra en spámenn gera ráð fyrir! Yngri leikmenn liðsins eins og Kawhi Leonard og Danny Green verða þó að stíga upp til að svo verði í ár. Liðið vinnur 55 sigra í vetur af gömlum vana!
 
3. Memphis Grizzlies
Memphis náði besta árangri í sögu félagsins síðastliðinn vetur en ákveður að láta þjálfarann fara. Sá sem tekur við var reyndar aðstoðarþjálfari liðsins undanfarin sex ár þannig að líklegast verður unnið áfram á sama grunni. Liðið sem hefur á að skipa sterkum leikmönnum í teignum þeim Marc Gasol og Zach Randolph auk varnarjaxlsins Tony Allen og snerpu Mike Conley spila svakalega vörn (gáfu næst fæst stig í leik á síðasta tímabili) og verða að halda því áfram í vetur til að ná sambærilegum árangri og í fyrra. Liðið bætir ekki árangur síðasta árs og endar með um 50 sigurleiki.
 
4. Dallas Mavericks
Dirk Nowitski, Shawn Marion og Vince Carter eru allir að spila lokaár núverandi samnings og jafnvel hugsanlegt að allir fari annað í vetur! Fyrir utan Monta Ellis og Jose Calderon er ekki mikið um mjög góða leikmenn í liðinu og ekki ólíklegt að Mark Cuban eigandi liðsins verði með einhver svakaleg leikmannaskipti í vetur! Rick Carlisle þjálfari á erfitt verk fyrir höndum í vetur og mér segir svo hugur að liðið nái ekki í úrlitakeppnina í ár með 42 sigra.
 
5. New Orleans Pelicans
Anthony Davis var valinn fyrstur í nýliðavalinu fyrir síðastliðið tímabil og stóð sig með ágætum í ár. New Orleans var þó eitt af verstu varnarliðum deildarinnar og með nýja nafnið “Pelicans”, nýja búninga og nánast nýtt lið sem á að spila hraðan körfubolta má búast við að liðið þurfi tíma til að smella saman. Liðið fékk til sín Jrue Holiday frá 76ers og Tyreke Evans frá Sacramento, báðir skemmtilegir leikmenn en þó ekki nóg til að komast í úrslitakeppnina. Eflaust mun liðið bæta vinningshlutfall síðasta árs (27-55) en ekki mikið og sigrar í 30 leikjum.
 
Tengt efni:
 
Fréttir
- Auglýsing -