Leikur Njarðvíkur og Keflavíkur var mjög kaflaskiptur milli helminga. Njarðvíkingar hittu mjög vel í fyrri hálfleik en varnarleikur Keflvíkinga í þeim síðari dró heldur úr sóknarmætti heimamanna.
Heimamenn settu upp skotsýningu fyrir gesti í fyrsta fjórðungi þar sem þeir settu niður 11 af 16 skotum sínum utan að velli og 5/8 í þristum. Njarðvíkingar skoruðu 1,46 stig per sókn og nýttu 62,4% sókna sinna til að skora a.m.k. 1 stig á fyrstu 10 mínútunum. Skotnýting Njarðvíkinga var heldur ekki af verri endanum eða 84,4 eFG% og 87,7 TS%.
Aðeins hægðist á sóknarleik Njarðvíkinga í öðrum fjórðungi en þá sýndu Keflvíkingar afburðar nýtni í sókn og settu 1,32 stig per sókn og nýtingarhlutfallið 56,4%.
Fyrri hálfleikur var mjög góður fyrir bæði lið þar sem þau skoruðu bæði um 1,2 til 1,3 stig per sókn og meðalnýting sókna þeirra um 52-53%.
Varnarleikur Keflvíkinga hægði töluvert á heimamönnum í seinnihálfleik. Nýting þeirra féll niður í 38,1 eFG% og sóknarnýting niður í 37,9%. Keflvíking héldu þó sínu striki þar til leikurinn var í járnum á lokamínútunum. Keflvíkingar héldu Njarðvíkingum í 0,79 stig per sókn í fjórða hluta sem er óhemjulágt.
Njarðvíkingar þrífast best í hröðum leik og er meðalleikhraði liðsins í fyrstu tveimur leikjum deildarinnar 88,0 – leikir sem Njarðvíkingar unnu. Keflvíkingar hins vegar hafa örlítið lægra meðaltal í sínum fyrstu tveimur leikjum eða 85,1. Leikhraðinn í fyrsta fjórðung var á pari við það sem Njarðvíkingar vilja sjá eða 87,7 en hann féll niður í 75,4 þegar Keflvíkingar tóku völdin með varnarleiknum.
Nýting og skilvirkni Loga Gunnarssonar í fyrsta hluta var framúrskarandi með 92,9 eFG% og 94,0 TS%. Logi hitti úr þremur af fjórum skotum sínum utan þriggja stiga línunnar. Logi skoraði 2,96 stig per sókn í fyrsta hluta og nýtti 57,7% sókna sinna til að skora a.m.k. eitt stig og endaði með 19 stig í hálfleik. Eftir fyrsta hluta fór leikur Loga hratt niður í móti.
Elvari Má gekk illa að hitta eða nýta færin sín við körfuna og endaði hann með slök nýtingarhlutföll. 1,09 stig per sókn og sóknarnýtingu upp á 36,1%. 41,2 eFG% og vegur þar helst 2/8 nýting hans í þriggja stiga skotum. Elvar á hinn bóginn gaf 12 stoðsendingar í leiknum og samkvæmt talningu leiddu 10 af þessum 12 stoðsendingum af sér þriggja stiga körfur. Elvar átti þannig þátt í 51 stigi af 85 stigum Njarðvíkinga í leiknum – 17 stig skoruð, 10 stoðsendingar sem skiluðu þriggja stiga körfum og 2 stoðsendingar sem skiluðu 2 stigum hvor.
Hetja kvöldsins fyrir Keflvíkinga var að sjálfsögðu Gunnar Ólafsson sem hafði verið ískaldur í leiknum með 1/6 nýtingu í þriggja stiga skotum, en hann sökkti niður rándýrum þrist þegar innan við sekúnda var eftir af leiknum. Framlag Gunnars hafði ekki verið mikið fram að þessu og endaði hann með 41,7% eFG og 0,7 stig per sókn, eða 11 stig í heildina.