Keflvíkingar unnu í kvöld sinn fjórða leik í röð í Domino´s deild karla þegar þeir heimsóttu Val að Hlíðarenda. Hannes Birgir Hjálmarsson fylgdist með fjörinu:
Fyrsti fjórðungur
Valsmenn hefja leikinn betur og skora fyrstu sex stig leiksins, en síðan færðist meira jafnræði með liðinum og Valur leiðir 11-7 þegar fjórðungurinn er hálfnaður. Valsliðið sýndi mukla baráttu i vörninni og nýttu skot sín vel með 60% í tveggjastiga og 50% í þriggjastiga skotum og leiddu verðskuldað með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta 21-19. Sex leikmenn Vals hafa skorað í leiknum en þrír Keflvíkingar þ.m.t. Michael Craion sem stefnir í stórleik og er kominn með 7 stig og 8 fráköst(!) í fyrsta fjórðungi.
Annar fjórðungur
Leikurinn er í járnum fram í miðjan leikhlutann þegar Keflvíkingar hafa náð forystu 29-31 og nú fer að skilja milli liðanna. Keflvíkingar ná að skora auðveldari körfur eftir tapaða bolta Valsliðsins og ná að auka forystuna í 11 stig 39-50 í lok annars leikhluta. Valsliðið tapaði 6 boltum í leikhlutanum og munar um minna gegn firnafljótu liði Keflavíkur. Arnar Freyr skorar 14 stig í leikhlutanum!
Þriðji leikhluti
Valsmenn ná ekki að finna glufur á svæðisvörn Keflvíkinga og lenda í miklu vandræðum með að skora í leikhlutanum, aðeins fimm stig Vals líta dagsins ljós fyrstu fimm mínútur leikhlutans gegn 11 stigum Keflavíkur staðan 44-61 um miðbik fjórðungsins. Keflavík heldur forystunni það sem eftir lifir og leiðir með 19 stigum í lok þriðja leikhluta 52-71 og sigurinn nánast í höfn. Keflvíkingar hafa skorað 52 stig gegn 32 stig Vals í örðum og þriðja leikhluta. Craion er kominn með tröllatvennu 21 stig og 21 frákast eftir þrjá fjórðunga en Chris Woods hefur lítið orðið ágengt gegn Keflavíkurvörninni en er þó búinn að skila 14 stigum og sex fráköstum.
Fjórði leikhluti
Lokaleikhlutinn er nánast formsatriði og forysta Keflvíkinga örugg allan fjórðunginn. allir leikmenn liðanna fengu að spila en það breyttist lítið við það Keflvíkingar unnu öruggan sigur 76-94.
Valsliðið byrjaði leikinn vel en hélt ekki út gegn sterku liði Keflavíkur. Michael Craion var yfirburðamaður í liðinu og vinnur vel fyrir liðið sem hefur mikla breidd. Arnar Freyr átti einnig mjög góðan leik, skoraði 19 stig, gaf 6 stoðsendingar og stal 5 boltum. Þá gaf Valur Orri 10 stoðsendingar í leiknum. Valsliðið á enn talsvert í land þótt batamerki hafi sést í leik liðsins síðustu tvo leiki. Ánægjuefni er að fyrirliðinn Ragnar Gylfason virðist vera að jafna sig á meiðslum sem hafa hrjáð hann í vetur og setti hann fimm af átta þristum í leiknum! Liðið verður þó að halda baráttu út heilan leik ef liðið ætlar sér að vinna leiki í vetur.
Hannes Birgir Hjálmarsson /Vodafonehöllin að Hlíðarenda