spot_img
HomeFréttirMartin var stjarna leiksins

Martin var stjarna leiksins

Stjörnumenn mættu galvaskir í DHL-höllina í kvöld og öttu kappi við ósigraða KR-inga í deildarkeppninni til þessa. Stöð 2-menn voru líka mættir með stórmeistara Svala Björgvins innanborðs og ekki von á öðru en góðum leik fyrir áhorfendur í sal og sófa. Stjörnumenn höfðu aðeins landað einum sigri til þessa í deildinni en með nýjum Kana gerðu gestirnir sér þó væntanlega einhverjar vonir.
 
 
KR-ingar byrjuðu mun betur í kvöld. Helgi setti snögg fimm stig og svo tók Martin við og raðaði stigum óáreittur á töfluna. Ef ekki hefði verið fyrir ítrekaða glæsitakta frá meistara Shouse hefði Stjarnan ekki verið bara 11 stigum undir eftir fyrsta fjórðung, 27-16. Einnig vildi það Stjörnumönnum til happs að Pavel var nokkurn veginn við alkul og galopin skot hans geiguðu í gríð og erg.
 
Það var ljóst að Stjörnumenn lögðu upp með að loka teignum og gefa frekar skotin fyrir utan. Það var einmitt það sem kom þeim inn í leikinn aftur því KR-ingar virtust ætla að setja met í fjölda þriggja stiga skota og lítið vildi niður. Sóknarleikur gestanna skánaði til muna að sama skapi, meira flæði og Hairston og Kjarri lögðu í púkkið með Shouse. Allmörg sóknarfráköst og Martin fyrrnefndur Hermannsson gerðu það að verkum að heimamenn héldu naumri forystu í hálfleik, 42-40. Martin og Shouse virtust vera í eins konar einvígi en í hálfleik var Martin með 17 stig og Shouse 16.
 
Gestirnir mættu svo eldhressir í þriðja leikhluta. Shouse stýrði sínu liði af einstakri fegurð og Hairston duglegur við stigaskorun fyrir Stjörnumenn. Vörnin prýðileg og sókn KR-inga frekar einhæf – mikið um þriggja stiga skot og Pavel enn við alkul. Stjörnumenn voru allt í einu komnir 52-60 yfir um miðjan leikhlutann. Martin var enn iðinn við kolann og KR-ingar enduðu leikhlutann ágætlega, settu loksins nokkra þrista og munurinn aðeins 3 stig eftir þriðja, 64-67 gestunum í vil.
 
Það hitnaði vel í húsinu í fjórða leikhluta og stemmningin jókst. Liðin buðu upp á fínan bolta og allt var í járnum. KR-ingar náðu sér svolítið upp úr þriggja stiga ,,álögunum“ og fengu mola frá fleirum, t.d. var Darri að vakna til lífsins sóknarmegin. Í stöðunni 78-78 gerðu taugarnar vart við sig hjá báðum liðum og ekkert var skorað í 3 mínútur eða svo. Pavel braut ísinn á línunni þegar tvær mínútur lifðu leiks, 80-78. Stjarnan missti svo boltann klaufalega í stöðunni 82-80 og það fór vel á því að Martin kláraði leikinn á línunni skömmu síðar með því að setja bæði, 84-80. Shouse reyndi að svara fljótt en erfitt skot hans geigaði. KR-ingar voru sendir á línuna og leikurinn varð svo bráðkvaddur er Hairston fékk á sig óíþróttamannslega villu og sigur heimamanna tryggður. Lokatölur 88-84.
 
Martin Hermannsson var svaðalegur í þessum leik en hann er svo sem löngu hættur að vera efnilegur og er bara stórkostlegur leikmaður. Drengurinn setti 31 stig og gaf 8 stoðsendingar. Hann hefði vafalaust sætt sig við svolítið meiri hjálp, einkum í fyrri hálfleik, en Pavel og Helgi luku þó báðir leik með 15 stig. Pavel hefur þó sennilega farið í heita sturtu eftir leik enda með 4/17 í skotum en slíkt hendir bestu menn.
Hjá gestunum stóðu þeir Shouse og Hairston upp úr með 26 stig hvor, Shouse með 9 stoðsendingar og Hairston 9 fráköst.
 
Tekinn var púlsinn á þjálfurum liðanna eftir leik.
 
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar:
 
Þið farið ansi illa af stað í þessum leik.
,,Já, við vorum daprir í byrjun og varnarleikurinn var bara virkilega dapur hjá okkur. Svo skánaði það þegar leið á leikinn og fórum að fylgja planinu betur eftir.”
 
Þið virtust leggja upp með að loka teignum og gefa þeim skotin fyrir utan. Það gekk ágætlega upp í 2 og 3 leikhluta.
,,Jájá, og kannski hefðum við bara átt að gera það aðeins betur. Martin var að komast alltof mikið upp að körfunni og gerði okkur virkilega erfitt fyrir. Fyrir utan Martin þá fannst mér takast bara nokkuð vel að fylgja planinu en hann átti stórkostlegan leik strákurinn og að öðrum ólöstuðum maður leiksins.”
 
En leikur liðsins er að skána mikið þrátt fyrir tap, leikur liðsins var alveg skelfilegur í fyrstu leikjunum.
,,Jájá, ég er alveg sammála því og þér að segja þá höfum við verið 5-6 á æfingum síðustu vikuna og ég bjóst þannig lagað ekki við neinu akkúrat hérna í dag en nú er smá hugur í mér og mér líður miklu betur með liðið og nú förum við bara óhræddir í næstu leiki og ætlum að vinna þá. En eins og ég segi, það var allt annar svipur á liðinu.“
 
Hafa menn þá verið eitthvað í meiðslum?
,,Já, og svo hefur unglingaflokkur verið önnum kafinn líka þannig að það hefur verið afskaplega fámennt en góðmennt á æfingum“ sagði Teitur og glotti við tönn.
 
Finnur Stefánsson, þjálfari KR:

Þið byrjið mjög vel en svo var eins og að þið hafið ætlað að setja met í þriggja stiga skotum í 2. og 3. leikhluta?
,,Já, ég meina ef við fáum þau opin þá tökum við þau. Það er bara þannig – ef þessum leikmönnum eru boðin þessi skot þá vil ég bara að þeir taki þau. Ef við hefðum verið að skjóta eðlilega þá hefðum við kannski verið 15-20 yfir í hálfleik þannig að ég kvarta aldrei yfir því að taka opin skot. Vissulega hefðum við getað sótt meira á körfuna en þetta var það sem þeir voru að gefa okkur.“
 
KR hafa spilað vel án erlends leikmanns og það má velta því fyrir sér hvort KR þurfi á Kana að halda. Í þessum leik má kannski ljóst vera að liðið gæti alveg nýtt sér þjónustu erlends leikmanns enda mjótt á munum í kvöld?
,,Jájá, við ef við fáum tækifæri til að bæta við okkur góðum leikmanni þá gerum við það eins og öll lið í deildinni myndu gera. Við erum í þessu til að vinna og viljum hafa eins góða möguleika og hægt er og ef við getum bætt við okkur einum frábærum leikmanni þá gerum við það klárlega.“
 
Þið verðið væntanlega óárennilegir ef þið nælið í góðan erlendan leikmann?
,,Jájá, en allir leikir eru 40 mínútur og allir leikir byrja 0-0 þannig að við þurfum að koma inn á og mæta og berjast í hverjum einasta leik. Við vorum þungir í dag, síðasti leikur sat meira í okkur en ég var að vona, en gríðarlegur karaktersigur og virkilega sætt að koma til baka eftir að hafa misst þá fram úr okkur í þriðja og upphafi fjórða leikhluta.“
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -