CAI Zaragoza mætir Valencia á útivelli í ACB deildinni á Spáni í dag. Karfan.is ræddi við Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmann og leikmann Zaragoza, en Jón sagði að gera mætti ráð fyrir hörku leik enda rígur milli liðanna.
Nú þegar er hafin viðureign Valladolid og Labor Kuxia og þegar þetta er ritað er staðan jöfn 9-9 og Hörður Axel Vilhjálmsson kominn með þrjú stig.
Í samtali við Jón Arnór sagði kappinn að þýsku liðin sem Zaragoza hefði mætt í Eurocup væru lið sem þeir ættu að vinna.
„Við höfum farið ágætlega af stað en verið óstöðugir, spilað vel oft og verið yfir allan leikinn og svo tapað á síðustu 3-4 mín t.d í Berlin og Bonn, lið sem við eigum að vinna,“ sagði Jón og henti út smá hrósi á andstæðinga dagsins.
„Verður erfitt í dag, Valencia er að spila fallegan bolta það sem af er móti og eru með breiðan hóp en það er rígur á milli þessara liða þannig að það má búast við hörku leik vonandi. Við verðum að vera vel stilltir, súper einbeittir og andlega undirbúnir til að eiga möguleika á að vinna.“
Þetta verður fyrsti leikurinn sem liðin mætast síðan í úrslitakeppninni í fyrra þegar Zaragoza sló Valencia út nokku óvænt. Eftir tímabilið tóku menn í Valencia upp budduna og keyptu þá Sam Van Rossom og Pablo Aquilar, báðir landsliðsmenn og mikilvægir hlekkir í Zaragoza liðinu. Þetta verður því fyrsta skipti sem þeir félagar mæta sínum gamla liði.
Viðureign Valencia og CAI Zaragoza hefst kl. 18:00 að staðartíma en Spánverjar eru klukkustund á undan okkur svo leikurinn hefst kl. 17:00 að íslenskum tíma.