spot_img
HomeFréttirHaukar hrukku í gang í lokin

Haukar hrukku í gang í lokin

Það verður seint sagt að leikur Haukar og KFÍ í kvöld hafi verið mikið fyrir augað þegar liðin mættust í loka leik sjöttu umferðar Domino‘s deildarinnar á Ásvöllum í kvöld. Mögulega voru allir í húsinu að bíða eftir að klára leikinn til þess að fylgjast með íslenska landsliðinu spila við Króata en leikurinn var hreint út sagt furðulegur. Haukar fóru þó með sigur af hólmi 73-67 og halda fimmta sæti deildarinnar á meðan KFÍ þarf enn að bíða eftir sínu fyrstu stigum.
 
Ísfirðingar byrjuðu með látum og komust strax í 0-5 og svo í 4-10. Haukar rönkuðu þá aðeins við sér og komust yfir 13-11 en heimamenn pressuðu á mikið á Jason Smith, leikstjórnanda KFÍ, og náðu að krækja sér í nokkra auðvelda bolta sem skiluðu körfu. Haukar leiddu með fimm eftir leikhlutann og virtust vera búnir að finna taktinn.
 
Vörn Haukar var heilt yfir frekar góð og áttu gestirnir í basli með að finna leið að körfunni. Á sama tíma var sókn þeirra oft frekar þvinguð og þegar leið á leikinn var eins og allir liðsmenn Hauka væru hræddir við að taka skot utan að velli. Kannski var hluti af hræðslu þeirra staðreyndin að þeir voru búnir að taka 19 þriggja stiga skot fyrir loka leikhlutann og setja eitt niður. Ísfirðingar náðu þó ekki að nýta sér þessa lélegu hittni Hauka þó þeir hafi leitt leikinn allan seinni hálfleikinn.
 
Haukar náðu 11 stiga forskoti í öðrum leikhluta en Ísfirðingar voru búnir að mjatla það niður, 36-33, áður en í hálfleik var komið. Fljótlega voru gestirnir komnir yfir í leiknum og náðu mest sex stiga forskoti. Þó var ekkert í kortunum að þeir væru að fara að klára leikinn með stæl og hirða stigin tvö en að sama skapi var ekki hægt að sjá að Haukar væru vænlegir til árangurs.
 
Það var ekki fyrr en í lok fjórða leikhluta sem dró til tíðinda. Haukar jöfnuðu leikinn 63-63 þegar þrjár mínútur voru til loka leiksins og þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka smellti Kári Jónsson niður þriggja stiga körfu og kom Haukum þremur stigum yfir 68-65. Haukar náðu frákasti í næstu vörn og brunuðu í sókn þar sem dæmd var óíþróttamannsleg villa á Jason Smith. Davíð Páll Hermannsson setti niður bæði vítin en Haukum gekk ekki að full nýta sóknina þar sem þriggja stiga skottilraun Emils Barja klikkaði. Hann hins vegar stal boltanum þegar hann komst inn í sendingu frá Leó Sigurðssyni og kom knettinum á Kára Jónsson sem skilaði honum ofan í körfu KFÍ manna og Haukar komnir sjö stigum yfir á mínútu sléttri. Ekki gafst nægur tími fyrir gestina til að freista þess að snúa dæminu við og unnu Haukar sex stiga sigur 73-67.
 
Terrence Watson var drjúgur í liði Hauka en hann kom niður 25 stigum, reif 20 fráköst og varði 4 skot og Kári Jónsson átti fínan dag með 16 stig og 4 stolna bolta.
 
Hjá KFÍ var Jason Smith allt í öllu en hann skoraði 28 stig, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og Mirko Virjevic var með 18 stig og 14 fráköst.

Myndasafn úr leiknum

 
Mynd/ Kári Jónsson var sterkur í lokin fyrir Hauka – Axel Finnur
Fréttir
- Auglýsing -