Mikill stemningsleikur var spilaður á Akranesi á sunnudagskvöldið en þá mættust ÍA og Fjölnir. Heimamenn leiddu lengst af en Fjölnismenn sigu fram úr á lokasprettinum og unnu leikinn 86-79.
Stigahæstur Fjölnismanna var D.J. Foreman með 31 stig. Framlagshæstur í liði Fjölnis var Ólafur Ingi Styrmisson með 29 framlagsstig en hann skoraði 12 stig, tók 17 fráköst og 2 stoðsendingar.
Í liði ÍA var Lucien Thomas Christofis stiga- og framlagshæstur með 26 stig.
Fjölnismenn hafa verið á góðri siglingu og eru nú í 3.-4. sæti ásamt Álftanesi með 22 stig eftir 17 leiki. Þetta er athyglisverður árangur ungra uppaldra Fjölnisdrengja en megin uppistaða liðsins eru leikmenn í drengja- og unglingaflokki ásamt tveimur erlendum leikmönnum.