Íslandsmeistarar Þórs lögðu Stjörnuna í kvöld í Subway deild karla, 88-75. Eftir leikinn er Þór í 3. sæti deildarinnar með 18 stig á meðan að Stjarnan er í 6. sætinu með 14 stig.
Fyrri viðureign
Liðin höfðu í eitt skipti áður mæst í deildinni á tímabilinu. Þann 21. október lagði Þór lið Stjörnunnar með fimm stigum í MGH, 92-97.
Gangur leiks
Nokkuð jafnræði er á með liðunum í upphafi leiks. Heimamenn í Þór sigla þó aðeins framúr undir lok fyrsta fjórðungsins sem endar 25-19. Liðin skiptast svo á snöggum áhlaupum í öðrum leikhlutanum, en undir lok fyrri hálfleiksins er allt í járnum. Staðan 50-50 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.
Atkvæðmestur Stjörnumanna í fyrri hálfleiknum Robert Turner með 15 stig á meðan að fyrir Þór var það Luciano Massarelli sem dró vagninn með 18 stigum.
Heimamenn í Þór ná svo að vera skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiksins. Vinna þriðja leikhlutann 20-10 og eru 10 stigum yfir fyrir þann fjórða, 70-60. Stjarnan virtist svo eiga fá sem engin svör í lokaleikhlutanum. Ná forystu minnst niður í 9 stig á lokamínútunum, en leikurinn endar með 13 stiga sigri heimamanna, 88-75.
Kjarninn
Íslandsmeistararnir voru í miklum vandræðum með sóknarfráköst Stjörnunnar í fyrri hálfleik. Í þeim seinni ná þeir að mestu að skrúfa fyrir þau og uppskáru sigurinn að miklu leyti útaf því. Án þess að fá þessa öðru og þriðju sjénsa leit sókn Stjörnunnar ekki vel út. Skora bara 25 stig í öllum seinni hálfleiknum á meðan að sóknarlega hélt Þór velli.
Tölfræðin lýgur ekki
Flæðið í sóknarleik Stjörnunnar var lítið í kvöld. Gefa aðeins 14 stoðsendingar í leiknum á móti 26 hjá heimamönnum.
Atkvæðamestir
Þetta var Luciano Massarelli leikurinn. Inn af bekknum setur hann 30 stig úr 22 skotum af vellinum og bætir einnig við 5 stoðsendingum. Honum næstur var Ronaldas Rutkauskas með 15 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar.
Fyrir Stjörnuna var Hilmar Smári Henningsson atkvæðamestur með 18 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar.
Hvað svo?
Þór leikur næst komandi mánudag 31. janúar gegn Vestra í Þorlákshöfn á meðan að næsti leikur Stjörnunnar er gegn Þór Akureyri þann 3. febrúar í MGH í Garðabæ.