Eins og eflaust marga grunaði voru það fráköstin í gærkvöldi sem vógu þungt í fyrsta úrslitaleik KR og Grindavíkur. Eftir seríu þar sem Grindvíkingar yfirgnæfðu frákastabaráttuna gegn Njarðvík var Íslands- og bikarmeisturunum pakkað í gær. Byrjunarlið KR tók 42 fráköst gegn 25 fráköstum hjá byrjunarliði Grindavíkur.
Heildarfráköst Grindvíkinga í gær voru 33 talsins, færri fráköst hefur Grindavík ekki tekið síðan 23. nóvember 2013 þegar liðið tók bara 32 fráköst gegn KFÍ sem var jafnframt slakasta frákastaframmistaða Grindvíkinga á leiktíðinni. Í gær bauð Grindavík s.s. upp á næstverstu frákastaframmistöðu sína á tímabilinu, líkast til ekki rétti tíminn til að dúkka upp með þær tölur.
Heildarfráköst KR í gær voru 47 talsins gegn 33 hjá Grindavík en Grindavíkurbekkurinn reyndist þó dýpri en hjá KR með 18 stig á móti 6 hjá KR-ingum. Í seríu er nokkuð ljóst að KR bekkurinn þarf að bíta betur frá sér en í gær naut KR þess munaðar að byrjunarliðsmennirnir voru allir að leggja sín lóð á vogarskálarnar, allir fimm í 13 stigum eða meira.
Grindavíkurbekkurinn gerði vel í gær, tapaði engum bolta, var 3 af 5 í þristum, gaf 7 stoðsendingar og með framlag upp á 28 á meðan KR bekkurinn bauð upp á -1 í framlag. Ómar Örn Sævarsson bauð upp á 13 í framlag, hans lægsta í síðustu 8 leikjum og Sigurður Gunnar Þorsteinsson bauð upp á 14 í framlag, hans lægsta í síðustu sjö leikjum.
Darri Hilmarsson var funheitur í gær, 5 af 6 í þristum en þetta er í fyrsta sinn sem Darri gerir fimm þrista í leik á tímabilinu! Grindvíkingum er s.s. vorkunn þegar Darri byrjar að negla þristum því flestir gera ráð fyrir að Martin, Brynjar og Helgi séu skæðari fyrir utan.
Leikur tvö verður í Röstinni næsta föstudag, mun Darri halda áfram að láta rigna og stoppa Grindvíkingar í frákastagötin?
Mynd/ Helgi Magg að taka eitt af 47 fráköstum KR-inga í gær.