Keflavík er Íslandsmeistari í stúlknaflokki eftir sigur á grönnum sínum úr Njarðvík í úrslitaviðureign liðanna sem fram fór í Smáranum í Kópavogi. Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi en Keflvíkingar stungu af í þeim síðari og höfðu að lokum örrugan 88-47 sigur. Miðherjinn Sandra Lind Þrastardóttir var valin besti leikmaður úrslitaleiksins með 19 stig, 13 fráköst, 8 varin skot og 3 stoðsendingar.
Guðlaug Björt Júlíusdóttir fór fyrir Njarðvíkingum framan af leik og gerði 10 fyrstu stig grænna áður en aðrar komust á blað. Fyrsti leikhluti var hnífjafn en Júlía Scheving lokaði honum fyrir grænar með stökkskoti og leiddu Njarðvíkingar 16-18 eftir fyrstu 10 mínútur leiksins. Sara Rún Hinriksdóttir fékk tvær villur í upphafi leiks.
Keflvíkingar voru byrjaðir í svæðisvörn undir lok fyrsta leikhluta og í upphafi annars leikhluta virkaði hún fantavel, Njarðvíkingar héngu fyrir utan og tóku bara þriggja stiga skot sem flest hver voru allt annað en líkleg. Írena Sól Jónsdóttir smitaði svo góða baráttu inn í Keflvíkinga sem komust í 23-18.
Guðlaug Björt var sem fyrr beitt hjá Njarðvíkingum en Júlía Scheving fór líka að ógna og Njarðvíkingar komust nærri, minnkuðu muninn í 28-26 en Keflavík leiddi 36-30 í leikhléi. Njarðvíkingar skoruðu flautukörfu í fyrri hálfleik sem eftir myndbandsskoðun dómara leiksins var síðan dæmd af þar sem hún var ekki lögleg.
Í þriðja leikhluta mættu Keflvíkingar grimmir til leiks, Sara Rún gíraði upp sinn leik fyrir Keflavík sem keyrðu vel í bakið á Njarðvíkingum og komust í 51-35 eftir sex mínútna leik í síðari hálfleik. Reyndar er það nánast ótrúlegt að dæmdar hafi verið aðeins tvær villur á Keflvíkinga á fyrstu 27 leikmínútunum, það er einfaldlega stærðfræði sem gengur ekki upp! Keflavík rúllaði upp leikhlutanum 26-8 og með þessu tíu mínútna harki sínu leiddu þær 62-38 og lögðu þar með grunninn að Íslandsmeistaratitli sínum.
Fjórði leikhluti varð aldrei spennandi, Keflvíkingar voru komnir á bragðið og framlag kom víðsvegar að svo Njarðvíkingar fengu ekkert við ráðið. Lokatölur 88-47 Keflavík í vil sem hafa á að skipa sterkum leikmönnum sem látið hafa kveða rækilega að sér í úrvalsdeildinni en þær Sandra, Sara og Bríet gerðu saman 53 af 88 stigum Keflavíkur.
Sandra Lind besti maður úrslitaleiksins ásamt Rúnari Birgi Gíslasyni frá Varmahlíð en Rúnar er ritari stjórnar KKÍ