Breiðablik lagði KR í kvöld í Smáranum í Subway deild karla, 135-87. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 8.-10. sæti deildarinnar með 10 stig.
Liðin höfðu í eitt skipti mæst áður í deildinni í vetur, í fyrstu umferðinni. Hafði KR þá sigur eftir framlengingu í spennuleik á Meistaravöllum, 128-117.
Gangur leiks
Heimamenn í Breiðablik mættu mun betur til leiks í kvöld. Ná mest 11 stiga forystu á upphafsmínútunum. Það er þó eins og KR ætli sér að hanga í þeim, en munurinn eftir fyrsta leikhluta samt 7 stig, 31-24. Undir lok fyrri hálfleiksins bæta heimamenn svo aðeins í og fara með 15 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 65-50.
Atkvæðamestur Blika í þessum fyri hálfleik var Hilmar Pétursson með 20 stig. Fyrir KR var það Þorvaldur Orri Árnason sem dró vagninn með 13 stigum, 6 fráköstum og 4 stoðsendingum.
Blikar gera svo útum leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Setja 47 stig á lánlausa KR vörnina og eru 45 stigum yfir eftir þrjá leikhluta, 112-67. Sá fjórði algjört formsatriði, Blikar vinna hann samt og loka leiknum með 48 stiga sigri, 135-87.
Kjarninn
Leikurinn í kvöld var frestaður leikur og því þurfti nýr leikmaður KR Carl Lindbom að sætta sig við borgaraleg klæði þrátt fyrir að vera kominn með leikheimild. Í teymi KR vantaði einnig þjálfarann Helga Má Magnússon, sem er í sóttkví, en við keflinu hans tók þjálfari KR frá síðasta tímabili Darri Freyr Atlason þetta eina kvöld. Í ofanálag missti KR sinn framlagshæsta leikmann nú um áramótin, hinn bandaríska Shawn Glover, en samkvæmt heimildum Körfunnar er félagið nálægt því að staðfesta leikmann í hans stað. KR liðið svosem bara verið meðalgott í þessari deild það sem af er, mátti alls ekki við þessu hringli fyrir leik kvöldsins í Kópavogi. Verða eflaust í lagi eftir að allir eru komnir af stað, atvinnumenn og þjálfarar, en í kvöld var þetta skelfilegt.
Eftir agalegt tap gegn ÍR í síðustu umferð var þetta leikurinn sem Breiðablik þurfti. Komast vel af stað sóknarlega gegn vængbrotnu liði KR og náðu með sigrinum að jafna bæði ÍR og KR að stigum í 8.-10 sæti Subway deildarinnar. Hálfgerður skyldusigur fyrir þá, en það má samt ekki taka það of mikið frá þeim hvað þeir sinntu þeirri skyldu vel. Bættu til að mynda stigamet vetrarins, en það fyrra átti KR í framlengda leiknum gegn þeim í fyrstu umferð, þar sem þeir settu 128 stig.
Atkvæðamestir
Everage Richardson var bestur í liði Blika í dag með 26 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Þá bætti Hilmar Pétursson við 27 stigum og 6 fráköstum.
Fyrir KR var Þorvaldur Orri Árnason atkvæðamestur með 19 stig, 8 fráköst, 7 stoðsendingar og Adama Darboe honum næstur með 20 stig og 4 fráköst.
Hvað svo?
Breiðablik tekur næst á móti Tindastól í Smáranum þann 27. janúar á meðan að KR á leik degi seinna þann 28. janúar gegn Grindavík á Meistaravöllum.