Keflvíkingar eru Íslandsmeistarar í 10. flokki kvenna eftir sigur á Haukum í úrslitaviðureign liðanna í Smáranum í Kópavogi. Keflvíkingar settust snemma í bílstjórasætið en Haukar voru aldrei langt undan. Keflvíkingar fundu taktinn fyrir utan þriggja stiga línuna í dag með betri skotnýtingu þar heldur en inni í teig og það ásamt góðum varnarleik reyndist Haukum um megn. Emelía Ósk Gunnarsdóttir leikmaður Keflavíkur var valin besti maður úrslitaleiksins með 12 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Hjá Haukum var Sylvía Rún Hálfdánardóttir með 23 stig, 9 fráköst, 3 stoðsendingar og 4 stolna bolta.
Fyrsti leikhluti einkenndist af stressi í herbúðum beggja liða, báðum aðilum gekk illa að finna körfuna og skoruðu Keflvíkingar t.d. ekki úr einu einasta teigskoti í fyrsta leikhluta en leiddu engu að síður 9-8 að honum loknum. Eins og tölurnar gefa til kynna var þessi fyrsti leikhluti hin mesta múrsteinahátíð en vissulega jafn og hart var barist.
Keflvíkingar þéttu raðirnar í vörninni í öðrum leikhluta, þær Elfa Falsdóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir gíruðu sínar konur upp með mikilli ákefði og höfðu sérstakar gætur á Sylvíu Rún Hálfdánardóttur í röðum Hauka. Þessi morgunmixtúra Keflavíkur hafði góð áhrif því hægt og bítandi sigu þær fram úr og leiddu 23-14 í hálfleik.
Keflvíkingar nutu sín áfram við stýrið í upphafi síðari háflleiks og komust í 35-20 þar sem þær voru ófeimnar við að bomba á Haukakörfuna. Að sama skapi var sóknarleikur Hafnfirðinga stirður gegn hástemmdri Keflavíkurvörninni. Þær Sylvía Hálfdánardóttir og Inga Rún Svansdóttir spýttu þó í lófana fyrir Hauka og drógu rauðar nærri, staðan 38-31 fyrir fjórða og síðasta leikhluta þar sem Sylvía setti niður eitt víti eftir að þriðja leikhluta lauk. Munurinn aðeins sjö stig og ljóst að spennandi lokasprettur væri í vændum.
Sama hvað Haukar reyndu þá tókst Keflavík alltaf að halda þeim í um 10 stiga fjarlægð. Haukar reyndar unnu fjórða leikhluta 17-16 en þeirra rispur voru einfaldlega of stuttar og of fáar. Haukar eygðu smá von þegar tvær mínútur voru til leiksloka þegar óíþróttamannsleg villa var dæmd á Keflavík og náðu Haukar að minnka muninn í 50-42 og fengu innkast aftur á miðjunni en tókst ekki að minnka muninn enn frekar og Keflvíkingar kláruðu dæmið verðskuldað 54-48.
Emelía Ósk Gunnarsdóttir var með 12 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar og 4 stolna bolta í liði Keflavíkur og Kristrós Ósk Jóhannsdóttir bætti við 12 stigum. Hjá Haukum mæddi mikið á Sylvíu Rún Hálfdánardóttur sem gerði 23 stig, tók 9 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 4 boltum og þá bætti Anna Lóa Óskarsdóttir við 9 stigum.
Emelía Ósk Gunnarsdóttir besti leikmaður úrslitaleiksins ásamt Hannesi Jónssyni formanni KKÍ