Sameinað lið Skallagríms og Snæfells, eða Snægrímur mætti Keflavík í úrslitum unglingaflokks karla í Smáranum í dag. Skemmtilegur leikur þar sem framtíð Íslands í körfubolta sýndi listir sínar. Keflvíkingar urðu Íslandsmeistarar með 99-84 sigri í leiknum.
Mjög mikið skorað í fyrri hálfleik hjá báðum liðum eða 47-55, sem er jafnvel mikið í meistaraflokki. Landsliðsmiðherjinn Stefán Karel Torfason fór mikinn fyrir Snægrím og skoraði jafnt sem að spila grimma vörn. Hann setti niður 12 stig í fyrsta fjórðung og 15 í þeim næsta. Keflvíkingar hertu hins vegar skrúfurnar að honum í seinni hálfleik og náði hann aðeins að skora 7 stig í seinni hálfleik.
Leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi þar til 10-0 sprettur Keflvíkinga í lok annars leikhluta kom þeim í þægilega forystu rétt fyrir hálfleik sem þeir létu ekki eftir það sem eftir lifði leiks.
Varnarleikur Keflvíkinga var frábær en þeir héldu Snægrími í 0,98 stigum per sókn en skoruðu sjálfir 1,19. Valur Orri Valsson fór á kostum fyrir lið Keflvíkinga með 31 stig (4/9 í þristum), 11 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Gunnar Ólafsson var einnig flottur með 23 stig (4/6 í þristum) og 6 fráköst. Andri Daníelsson átti góðan leik einnig með 17 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar.
Hjá Snægrími var Stefán Karel öflugastur 34 stig, 12 fráköst og 3 varin skot. Minna fór fyrir framlagi annarra leikmanna nema þá einna helst frá Jóhanni Kristófer og Þorbergi Helga sem voru með 12 og 11 stig. Þorbergur bætti við 8 fráköstum. Snjólfur Björnsson studdi vel við liðsfélaga sína í sókninni með 11 stoðsendingum.
Keflvíkingar hittu ágætlega úr þriggja stiga skotum eða 11/35 en þeir tóku aðeins þrjú skot af millifæri og hittu úr tveimur þeirra. Allt hitt kom af þriggja stiga línunni eða í teignum. Snægrímur hafði betur í baráttunni í teignum, skoruðu 48 stig þar á móti 42 frá Keflavík. Þeir unnu frákastabaráttuna með umtalsverðum mun eða 40 á móti 29 en náðu ekki að nýta sér það til að uppskera sigur. Stefán Karel sýndi gríðarlega skilvirkni í teignum þar sem hann tók 18 skot og nýtti 15 þeirra til að skora 30 stig.
Maður leiksins var verðskuldað Valur Orri Valsson, Keflavík.
Til hamingju Keflvíkingar með góðan sigur og Íslandsmeistaratitilinn, en félagið vann tvöfalt í unglingaflokki, bæði í kvenna og karla.
Myndir: Óskar Ófeigur