Donald Sterling fór í viðtal hjá CNN um helgina og gróf gryfjuna sem hann er að reyna að klóra sig upp úr enn dýpra. Samantekt sem fréttamaðurinn Anderson Cooper tók saman af viðtalinu er 17 mínútna þvaður um Magic Johnson, AIDS og hvaða vitleysa það sé að halda því fram að hann sé rasisti.
Það er samt eitthvað við þessa Dallas-sápuóperu sem fær mann til að halda að aðeins 10% sé á yfirborðinu en 90% undir. Sterling og Magic eiga greinilega einhverja sögu að baki. Eitthvað sem hefur ekki enn komið fram.
Magic og fjárfestar hans vilja kaupa liðið og fara ekki leynt með það. Hann fullyrti að hann myndi aldrei mæta á leik hjá Clippers á meðan Sterling ætti liðið. Samt sem áður mætti hann á leik liðanna á sunnudaginn og spjallaði lengi vel við Adam Silver. Silver hefur einnig fundið sig knúinn til að biðja Magic Johnson afsökunar á ummælum Sterling í viðtalinu. Allt er þetta mjög furðulegt.
Silver og Magic eru með full-court pressu á að láta karlinn selja liðið og það með snarhasti. Allir leggjast á eitt og jafnvel frúin hans Sterling. Hún fullyrti í viðtali við Today Show að Sterling væri ekki rasisti, en jafnframt henti gamla undir rútuna með því að segja að hann þjáist af vitglöpum. Henni gæti ekki verið meira sama um hann. Hún vill bara tryggja sinn eignarhlut í liðinu.
Sterling hraunaði yfir Magic Johnson í viðtalinu. Sagði hann kvensaman, með AIDS, hafi ekkert gert fyrir minnihlutahópa í LA og margt fleira. Það sem hins vegar mestu máli skiptir er að hann segir Magic hafa hringt í sig og sagt sér að tjá sig ekkert um þetta mál því hann ætli að laga það.
Að því gefnu að eitthvað sé satt í þessum fullyrðingum Sterling um Magic eru greinilega ekki öll kurl komin til grafar. Er samsæri í gangi til að koma liðinu í hendurnar á Magic og félögum? Er hann, eins og frú Sterling heldur fram, búinn að missa vitið og farinn að heyra raddir út um allt?
Hvernig sem er, þá er það bara tímaspursmál hvenær deildin losnar við Donald Sterling, sem lengi hefur verið þyrnir í augum stjórnenda hennar. Eflaust öllum fyrir bestu.
Það er hins vegar deginum ljósara að þetta verður sóðalegt mál.
Fylgist með Ruslinu á: