Bræðurnir Jón Axel og Ingvi Þór Guðmundssynir eru báðir á förum frá Grindavík en kapparnir munu læra við og leika körfubolta með Church Farm miðskólanum í Philadelphiu í Bandaríkjunum. Jón Axel sem verður 18 ára í október vakti verðskuldaða athygli með Grindvíkingum á tímabilinu og steig t.d. rækilega upp í fjarveru Þorleifs Ólafssonar. Bróðir hans Ingvi verður 16 ára í júlí og er í hópi nokkurra af efnilegustu leikmönnum landsins.
„Þetta tímabil í Domino´s deildinni var svo nálægt því að verða einstakt en þetta er tímabil sem maður lærir mikið af,“ sagði Jón Axel í samtali við Karfan.is. „Ef ég horfi á tímabilið í heild sinni get ég ekki sagt að við séum fullkomnlega sáttir með okkur, við áttum að geta unnið tvöfalt, vorum með nógu gott lið til þess. Bikartitillinn kom en það vantaði bara örlítið upp á að sá stóri hefði komið líka,“ sagði Jón Axel sem segir sig hafa öðlast gríðarlega reynslu þennan veturinn.
„Sérstaklega að taka þátt í úrslitaleikjum í bikarnum og úrslitakeppninni. Maður hefur reynt að læra af öllum þessum reynsluboltum sem eru í Grindavíkurliðinu, bæði leikmönnum og þjálfurum. Allt fer þetta í reynslubankann og maður tekur það með sér inn í framtíðina,“ sagði Jón en framtíðin bíður þeirra bræðra í Bandaríkjunum.
„Við ákváðum báðir að stefna frekar til Bandaríkjanna því okkur finnst meiri tækifæri þar, sérstaklega ef þú stefnir á að komast í góðan háskóla eins og ég geri. Menntaskólarnir sem við höfum verið að skoða eru með mjög góð körfuboltaprógrömm, hafa náð langt síðustu ár og leikmenn þeirra oft komist í góða háskóla,“ sagði Jón Axel en þeir bræður eru að fara í einkaskóla í útjaðri Philadelphiu-borgar.
„Church Farm hefur verið með 5-6 stráka frá Evrópu og Afríku í liðinu undanfarin ár svo þetta verður hörku samkeppni. Þarna eru 3-4 þjálfarar með 12-15 manna hóp og mikið hugsað um hvað einstaklingarnir þurfi að bæta í leik sínum. Þetta hefur líka verið draumur okkar síðan við vorum litlir og þegar þér gefst tækifæri á því að upplifa draum þinn þá er erfitt að segja nei við því. Nú erum við bara í pappírsvinnu vegna skólans og hlökkum til að fara út í ágúst.“
Nokkuð ljóst er að færibandavinnslan á góðum leikmönnum er í fullum gangi í Grindavík og engum dylst að brotthvarf þeirra bræðra er félaginu þungt en Jón Axel var með 6,1 stig, 3,9 fráköst og 2 stoðsendingar að meðaltali í leik með Grindavík á tímabilinu. Ingvi lék aðeins fjóra leiki í meistaraflokki en yngri flokkar félagsins eiga eftir að finna verulega fyrir hans brottför.