Ísraelska liðið Maccabi Tel Aviv er Evrópumeistari í Euroleague eftir framlengdan spennusigur á Real Madrid en úrslitaviðureign liðanna fór fram í Mílanóborg á Ítalíu í kvöld. Staðan var 73-73 eftir venjulegan leiktíma en Maccabi sigldi framúr í framlengingunni og lokaði leiknum 98-86 og fagnar því titlinum í fyrsta sinn síðan leiktímabilið 2004-2005.
Real Madrid hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik og virtust ætla inn í síðari hálfleikinn með um 10-15 stiga forystu en áhlaup hjá Maccabi á síðustu mínútum fyrri hálfleiks minnkaði muninn í 35-33 eftir flautuþrist frá David Blu og munurinn því aðeins tvö stig í leikhléi.
Liðin skiptust á þristum í þriðja leikhluta og staðan 55-53 fyrir Real að honum loknum þó Maccabi hafi nokkrum sinnum náð forystunni, ljóst var því að magnaður endasprettur yrði á boðstólunum.
Í fjórða leikhluta náði Maccabi frumkvæðinu en Real jafnaði leikinn í blálokin. Lokaskot frá Tyrese Rice til að vinna leikinn fyrir Maccabi geigaði og því varð að framlengja í stöðunni 73-73. Liðsmenn Maccabi fóru svo á kostum í framlengingunni og unnu leikinn 98-86. Tyrese Rice var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins með 26 stig og 4 fráköst og þegar mest á reið skilaði hann sínu svo um munaði. Sergio Rodriguez var svo atkvæðamestur í liði Real með 21 stig
Real Madrid vann Meistaradeildaina síðast tímabilið 1994-1995.
Þá fór bronsleikurinn fram fyrr í dag þar sem Barcelona hafði 93-78 sigur á CSKA Moskvu og því er bronsið Börsunga þetta sinnið.
Mynd/ Euroleague – Evrópumeistarar Maccabi Tel Aviv 2014.