spot_img
HomeFréttirBein textalýsing: Ísland-Finnland U16 kvenna

Bein textalýsing: Ísland-Finnland U16 kvenna

Ísland og Finnland eigast nú við í flokki U16 ára kvenna á Norðurlandamótinu í Solna. Beint textalýsing frá viðureigninni er hér að neðan: 
 
Staðan í riðlinum hjá U16 ára liði kvenna:
Nordiska Mästerskapen
Nr Lag V/F Poäng
1. Sverige WU16 3/0 6
2. Island W16 3/0 6
3. Finland W16 2/1 4
4. Danmark W16 0/2 0
5. Norge W16 0/2 0
6. Estland W16 0/3 0
Jónas: Þvílíkur karakter í þessu liði:

 
Ísland 70-59 Finnland
Sylvía Rún Hálfdanardóttir 31 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar
Emelía Ósk Gunnarsdóttir 18 stig, 5 fráköst
Thelma Dís Ágústsdóttir 3 stig, 13 fráköst
 
 
Fjórði leikhluti

– Leik lokið: Ísland 70-59 Finnland. Öflugur íslenskur sigur.

– Finnar drippla út af vellinum þegar 51 sek er eftir og brjóta strax, Ísland er á leið á línuna…þetta er komið gott fólk, þriðji sigur U16 ára kvennaliðsins er á leið í land.

– 58,6 sek eftir þegar Emelía Ósk setur niður eitt víti og kemur Íslandi í 67-57 og þar með er björninn unninn!

– 66-57 Sylvía Rún með gríðarlega mikilvæga körfu, smá klafs í teignum og boltinn barst til hennar og hún afgreiddi hann í körfuna þegar 1.06mín eru til leiksloka, þessi gæti hafa farið langt með leikinn! Finnar taka leikhlé.

– 63-54 Emelía Ósk setur niður tvö víti og búin að gera fjögur íslensk stig í röð. 2.40mín eftir.

– 61-54 glæsilegt samspil hjá Sylvíu og Emelíu þar sem Emelía afgreiðir tvö góð stig í teignum. 3.23mín eftir og Finnar taka leikhlé.

– 59-54 Inga Rún Svansdóttir skorar fyrstu stig Íslands í fjórða leikhluta, eykur muninn í 5 stig, það þurfti að bíða lengi eftir þessum stigum, vel gert hjá Ingu Rún í finnska teignum.

– Inga Rún með glæsilega varið skot en dæmd villa og íslensku áhorfendurnir ganga af göflunum…já það vantar ekki hamaganginn hér í Vasalund, það er allt á suðupunkti.

– 57-54 og 6.35mín eftir…Ísland enn ekki búið að skora í leikhlutanum. Mæðir mikið á Sylvíu Rún núna á lokasprettinum, Ísland verður að ógna úr fleiri áttum en frá Sylvíu, að öðrum kosti er íslenska liðið bara að auðvelda Finnum varnarvinnuna.

– 7.46mín eftir af leiknum og Ísland enn ekki búið að skora í fjórða, bæði lið farin að pústa vel. Staðan enn 57-53 fyrir Ísland.

– 57-53 Finnar opna með þrist, þessi fjórði leikhluti verður rosalegur!

– Fjórði leikhluti er hafinn og Ísland byrjar með boltann.

 
Sylvía Rún hefur farið mikinn í íslenska liðinu í dag

Þriðji leikhluti:
 
– Þriðja leikhluta lokið og staðan 57-50 fyrir Ísland. Hörku leikur í gangi. Finnar unnu þriðja leikhluta 16-18 og hafa þvingað út 29 tapaða bolta hjá íslenska liðinu. Þeim hreinlega verður að fækka!

– 55-46 og ein og hálf mínúta eftir af þriðja leikhluta sem hefur verið hnífjafn, staðan er 14-14 í leikhlutanum.

– 55-42 og 2.30mín eftir af þriðja leikhluta. Hörku barátta en Ísland er við stýrið, okkar dömur eru enn í vandræðum gegn finnsku pressunni en til þessa hefur það ekki valdið neinum breytingum á því að Ísland er við stýrið.

– 52-38 Sylvía fer enn eina ferðina galvösk inn í finnska teiginn og skorar. Komin með 26 stig og fagnar hverri körfu sem sigurkörfu, sú er hátt stemmd! 

– 50-38 Björk Gunnarsdóttir eykur muninn í tólf stig með töffara-gegnumbroti, virkilega vel gert við erfiðar aðstæður.

– 46-38 og miðherji Finna, hin hávaxna Tulonen fær sína fjórðu villu sem veit á gott fyrir íslenska liðið því hún hefur reynst okkur erfið til þessa í leiknum.

– 44-38 Finnar með 6-0 áhlaup og Jón Guðmundsson tekur leikhlé fyrir íslenska liðið.

– 44-32 Elfa setti annað vítið.

– 43-32 Inga Rún opnar síðari hálfleik með tveimur vítum fyrir íslenska liðið og nú skömmu síðar er Elfa Falsdóttir á leið á línuna. Ísland farið að ráðast aftur af krafti á finnska teiginn.

– Síðari hálfleikur er hafinn.

 
Hálfleikstölur: Ísland 41-32 Finnland
Sylvía Rún Hálfdánardóttir 20 stig – 4 fráköst
Emelía Ósk Gunnarsdóttir 9 stig – 3 fráköst 
 
(Emelía Ósk í baráttunni í fyrri hálfleik)

Annar leikhluti

 
– Hálfleikur: Staðan 41-32 fyrir Ísland. Sylvía Rún Hálfdanardóttir er með 20 stig og 4 fráköst í íslenska liðinu og næst henni er Emelía Ósk Gunnarsdóttir með 9 stig og 3 fráköst. Flottur fyrri hálfleikur en Finnar unnu annan leikhluta 20-13 með sterkum varnarleik. Helsta mál á dagskrá hjá Jóni og Jónasi í hálfleik verður að útfæra það hvernig liðið leysir maður á mann pressu Finna sem til þessa hefur tekist ágætlega að raka af sekúndurnar af íslensku skotklukkunni.

– 39-30 fyrir Ísland, laglega gert hjá Emelíu Ósk sem brunaði upp endalínuna og kláraði vel, mikill íþróttamaður hér á ferðinni.

– 37-28 og 2.34mín til hálfleiks. 

– Thelma Dís fær tvö víti, pumpaði laglega upp finnskan varnarmann og sótti þar villu, brennir af báðum vítum en gabbhreyfingin framkvæmd af yfirvegun í traffík í teignum, flott og útsjónarsamt hjá þessum unga og efnilega leikmanni, setur bara vítin næst.

– 37-24 Sylvía Rún setur niður tvö víti og komin í 20 stig. Magnað að fylgjast með stelpunni hérna.

– 5.17mín til hálfleiks og flottur íslenskur sprettur og Finnar taka leikhlé í stöðunni 35-22 en Inga Rún var enda við að skora eftir hraðaupphlaup.

– 30-22 þá losnaði loks um stífluna, Sylvía Rún með körfu í finnska teignum  og strax í næstu sókn fylgir þristur frá henni, staðan 33-22 og Sylvía komin með 18 af 33 stigum íslenska liðsins.

– Nú eru fjórar mínútur liðnar af öðrum leikhluta og staðan 28-20 fyrir Ísland og verið var að dæma tæknivíti á Ísland fyrir mótmæli af bekknum úr röðum þjálfara. Gengur allt upp hjá Finnum þessa stundina. Íslenska liðið þarf að ná áttum á nýjan leik og venjast því að spila gegn ákafri vörn Finna.

– 28-18 og Finnar byrjar 6-0. Þær finnsku eru grimmar í vörninni og íslenska liðið ekki jafn duglegt að ráðast á teiginn. Gríðarleg barátta í leiknum.

– 28-16 og Sylvía komin aftur inn í íslenska liðið, fór útaf á síðustu sekúndum fyrsta leikhluta. Henni gengur vel að koma upp með boltann gegn pressu Finna. Tvær mínútur liðnar af leikhlutanum og íslenska liðið enn ekki búið að skora. 

– 28-14 Finnar opna annan leikhluta með tveimur vítum.

– Annar leikhluti er hafinn, Ísland byrjar með boltann.

 
Elfa Falsdóttir sækir að Finnum
 
Fyrsti leikhluti (28-12)
 
– Fyrsta leikhluta lokið: Ísland 28-12 Finnland. Frábær fyrsti leikhluti hjá íslenska liðinu, sterk og góð vörn og sem fyrr, óeigingjarn liðsbolti á ferðinni. Sylvía Rún og Emelía Ósk hafa að mestu séð um stigaskorið en heilt yfir er Ísland að spila glimrandi vel.

– Hafnarfjarðarmærin Sylvía er dottin í ham, enn eina ferðina þræddi hún finnska teigin, fékk villu og skoraði að auki og kemur Íslandi í 28-12, Sylvía komin með 13 stig en hún er líka með tvær villur og verður að fara varlega.

– 23-10 Björk Gunnarsdóttir með góðan þrist fyrir Ísland eftir stoðsendingu frá Sylvíu Rún sem strax í næstu sókn prjónar sig í gegnum finnsku vörnina og breytir stöðunni í 25-12, Sylvía í svakalega flottum gír! 

– 20-10 Thelma Dís skorar af harðfylgi í finnska teignum. Íslensku bakverðirnir láta finnsku pressuna flækjast nokkuð fyrir sér þessar síðust mínútur í fyrsta leikhluta, eru svona að átta sig á því hvernig sé best að leysa úr þessum hamagangi í Finnum.

– 18-7 Finnar með þrist og komnir mun ofar á völlinn, freista þess að setja íslensku bakverðina í vandræði og reyna að halda boltanum frá Emelíu Ósk og Sylvíu Rún því þegar þær fara af stað standa Finnar eftir ráðalausir. 

– 14-2 Emelía Ósk með stolinn, brunar fram og skorar og þar strax í kjölsogið kemur Sylvía Rún með stolinn og skorar og breytir stöðunni í 16-2. Þvílíkar bombur þessar stelpur, Finnar vita vart hvaðan á sig stendur veðrið.

 
– 12-2 og eins og maðurinn sagði, þetta er fljúgandi „start“ – íslensku stelpurnar leika við hvurn sinn fingur og Finnar taka leikhlé þegar 5.41mín er eftir af fyrsta leikhluta. 

– 8-2 Emelía Ósk fær tvö víti sem hún setur niður en brotið var á henni eftir sóknarfrákast, Emelía fer vel af stað í dag, komin með 5 stig og 2 fráköst og lætur sem fyrr vel til sín taka í varnarleiknum.

– 6-2 Sylvía Rún setur niður tvö víti fyrir Ísland, flott barátta í íslenska liðinu strax frá fyrstu sekúndu.

– 1-0 Thelma setur annað vítið, skömmu síðar brunar 

– Leikur hafinn og það er Thelma Dís sem fer á línuna…

Fyrir leik:

– Nú eru rúmar fimm mínútur til leiks og liðin gera sig klár í að hlýða á þjóðsöngvana.

 
– Íslenska liðið hefur farið vel af stað á mótinu undir stjórn Jóns Guðmundsssonar og Jónasar Péturs Ólasonar og unnið tvo fyrstu leikina gegn Eistlandi og Noregi. Sem fyrr eru það Finnar sem virðast fjöldaframleiða stóra og stæðilega leikmenn og von á miklum slag hér í Vasalund-salnum í Solna. 
Fréttir
- Auglýsing -