spot_img
HomeFréttirEM fer ekki fram í Úkraínu 2015

EM fer ekki fram í Úkraínu 2015

Stjórn FIBA Europe hefur ákveðið að finna annan keppnisstað fyrir Evrópumeistaramótið 2015 en upphaflega átti mótið að fara fram í Úkraínu. Stjórn FIBA Europe fundar þessa helgi og í morgun varð þetta ein af niðurstöðum fundahaldanna.
 
 
Ákveðið var að færa EM frá Úkraínu af öryggisástæðum vegna ástandsins þar í landi. Að þessu sögðu hefur stjórn FIBA Europe heimilað forseta sínum, Turgay Demirel, og framkvæmdastjóra sínum, Kamil Novak, að hefja samningaviðræður við Úkraínumenn um að halda Evrópumeistaramótið 2017.
 
Nú hefst nýtt útboð fyrir EM 2015 og gerir stjórn FIBA Europe ráð fyrir því að nýr keppnisstaður gæti verið kynntur til sögunnar í kringum 30. september á þessu ári.
 
Þá tilkynnir FIBA Europe einnig á síðu sinni í dag að í stað þess að taka upp nýtt keppnisfyrirkomulag 2017 þá verður það gert strax á næsta ári. Það þýðir að 24 þjóðir munu komast inn á EM sem leikið verður í kringum 5.-20. september 2015. Fjórir riðlar verða leiknir með sex liðum innanborðs og að riðlakeppninni lokinni hefst strax útsláttarkeppni.
 
Hannes S. Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands situr fund FIBA Europe í Munchen þessa helgi en hann tók sæti í stjórn sambandsins á síðasta þingi FIBA Europe. 
 
Mynd/ Spánverjar urðu Evrópumeistarar 2011 þegar mótið fór fram í Litháen.
  
Fréttir
- Auglýsing -