Nordic Urban Challenge fór fram um þarsíðustu helgi í Danmörku en þetta er í þriðja sinn sem verkefnið fer fram. NUC er verkefni sem miðar að því að draga saman fólk í „urban“ kúltúrnum eins og Þorsteinn Lár Ragnarsson komst að orði en hann er tengiliður NUC á Íslandi. Tæplega 20 manna hópur frá Íslandi tók þátt í verkefninu og m.a. Streetball-lið sem samanstóð af Keflvíkingunum Magnúsi Þór Gunnarssyni, Arnari Frey Jónssyni, Ragnari Gerald Albertssyni og Andra Daníelssyni.
„Nordic Urban Challenge er hópur fólks sem fór af stað með þetta mótahald að tilstuðlan styrkja og fór fyrsta mótið fram árið 2012. Markmiðið er að draga saman fólk sem er í þessum urban kúltúr, þ.e. menning, listir og íþróttir. Þessi urban kúltúr er svolítið sprottinn úr elementum hiphop senunnar sem blómstraði í New York í kringum níunda áratuginn en elementin eru aðallega fjögur, Rap, skífuskank, graffiti og brake dans. Síðan höfum við tekið fleiri skemmtilegar greinar inn eins og götufótbolta og götukörfubolta,“ sagði Þorsteinn Lár en verið er að mynda vettvang fyrir fólk úr urban kúltúrnum til að koma fram, sýna sig og sanna
„Markmiðið að halda undankeppnir á Norðurlöndum áður en í sjálfa lokakeppni NUC kemur. Við erum ekki komin ýkja langt svo þegar það kom í minn hlut að setja saman körfuboltalið setti ég mig í samband við Magnús Þór. Við viðruðum þetta verkefni við Körfuknattleikssamband Íslands á sínum tíma og þeim fannst þetta mjög áhugavert. Síðasta helgi var mjög skemmtileg og okkar fólk var að gefa sig vel í þetta,“ sagði Þorsteinn en aðalstyrkurinn í dag kemur frá Nordisk Culture Fund og þannig var þátttaka Íslands í verkefninu fjármögnuð.
„Þá er líka gott að minnast á þátt Henson í mótinu en Halldór Einarsson á miklar þakkir skildar fyrir búningana sem hann útbjó fyrir verkefnið,“ sagði Þorsteinn en eins og gefur að skilja fara menn ekki á mót helgað urban kúltúr nema spengilegir í meira lagi á klæðaburðinn.
Magnús Þór skellti niður nokkrum þristum á Streetball mótinu eins og honum einum er lagið en mótið er ungt og þátttakan eftir því svo íslenska liðið lék fjóra leiki við sterkt lið frá Danmörku. „Danirnir mættu með tvo stráka úr háskólaboltanum og annan spilara sem við munum örugglega sjá í sterkri deild á næstum 2-3 árum,“ sagði Magnús en íslenska liðið mátti sætta sig við 3-1 tap gegn Dönum.
„Við vildum ekki styggja gestgjafana,“ sagði Magnús léttur í bragði en hann segir Streetball í Danmörku mun stærra og sterkara heldur en á Íslandi. „Við heyrðum það af forsvarsmönnum mótsins að það væru nokkur flott Streetball mót í Danmörku og m.a. mót þar sem verðlaunin eru einhverjar 5000 Evrur sem og þátttökuréttur á stærra móti í t.d. Sviss og þar síðar í Japan. Það er mun meiri alvara í Streetball á meginlandi Evrópu en við kannski gerum okkur grein fyrir, þarna í Danmörku eru t.d. margir mjög flottir útivellir og kannski hægt að spila meira enda ekki þetta sífellda rok og rigning eins og hér,“ sagði Magnús og bætti við að þátttakan í mótinu hafi verið gríðarlega skemmtileg.
Götubolti, Streetball eða 3 á 3 bolti er eitthvað sem er að ryðja sér sterklega til rúms þessi misserin en FIBA og FIBA Europe hafa beint sjónum sínum sérstaklega að 3 á 3 keppnum. Keppt verður í 3 á 3 á Evrópuleikunum 2015 og vinna stendur yfir við að koma 3 á 3 keppni í körfubolta inn á Ólympíuleikana 2020.
Myndir/ ÞLR