Haukur Helgi Pálsson lék með Njarðvíkingum í kvöld þegar liðið lék gegn U18 ára landsliðinu. Haukur hefur þó ekki haft félagsskipti í Ljónagryfjuna og var aðeins að spila með liðinu þar sem hann stundar æfingar suður með sjó þessa dagana. “Ég er hérna fyrir sunnan að halda mér í formi og auðvitað æfa mig í að verða betri fyrir komandi vetur.” sagði Haukur í snörpu viðtali.
Haukur hefur enn ekki samið fyrir næsta vetur og sagðist ekkert vera að hafa áhyggjur af því of mikið. “Ég er í sumarfríi og er bara að njóta þess en auðvitað legg hart að mér að halda mér í formi og æfi vel.” Óljóst er með öllu hvar Haukur mun spila næsta vetur en hann sagðist vera í sambandi við lið á Spáni og Svíþjóð og aðspurður útlokaði hann alls ekki að hann yrði jafnvel á Íslandi.