Íslenska kvennalandsliðið sigraði landslið Möltu í fyrsta leik Íslands á Evrópumóti smáþjóða í Austurríki í dag, 85-46. Íslensku stúlkurnar sýndu enga miskunn á slöku liði Möltu og spiluðu grjótharða vörn á þær allt til loka leiks.
Íslensku stúlkurnar hittu vel utan að velli eða 53% og ágætlega fyrir utan þriggja stiga línuna eða 33%. Héldu einnig liði Möltu niðri í 33% nýtingu utan að velli og þvinguðu 25 tapaða bolta. Ísland vann einnig frákastabaráttuna 43-32 og þar af með 11 sóknarfráköst.
Íslenska liðið nýtti styrk sinn gegn liði Möltu og sendu boltann oft inn í teiginn þar sem þær höfðu mikla yfirburði.
Helena Sverrisdóttir leiddi íslenska liðið með 16 stig og 9 fráköst. Helena átti einnig magnaða fléttu í lok fyrri hálfleiks þar sem hún keyrði inn í teiginn, sogaði að sér vörnina og átti svo leiser miðaða sendingu á Sigrúnu Ámunda fyrir utan þriggja stiga línuna og hún negldi niður þristinum áður en flautan galll í hálfleik. Gunnhildur Gunnarsdóttir átti einnig góðan leik með 12 stig og 4/5 í skotum. Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 10 stig og setti 2/3 fyrir utan þriggja stiga línuna.
39 stiga munur liðanna í leiknum var 3 stigum undir þeim mesta sem Ísland hefur unnið Möltu með í mótinu. Ísland er nú 5-0 á móti Möltu í það heila.
Næsti leikur íslenska liðsins er á móti Gíbraltar kl. 12:00 á morgun. Ísland hefur tvisvar spilað gegn Gíbraltar og unnið báða leiki og mest með 61 stigs mun.