Íslenska U18 karlaliðið lék sinn þriðja leik á EM í Búlgaríu í gær gegn Austurríki. Okkar menn unnu 80-62 í baráttuleik sem var jafnari en lokatölur gefa til kynna. www.kki.is greinir frá.
Austurríkismenn unnu Georgíumenn á fyrsta leikdegi en töpuðu svo gegn Ísrael og þeir mættu grimmir til leiks og á sama tíma vantaði aðeins upp á kraftinn í íslenska liðinu.
Austurríkismenn eru stórir og reyndust erfiðir í frákastabaráttunni og voru að skora óþarflega mikið eftir sóknarfráköst. Austurríkismenn leiddu 14-16 eftir fyrsta leikhluta en okkar menn fóru að hressast í öðrum leikhluta og þá sérstaklega í sóknarleiknum. Hilmir Kristjánsson kom sterkur af bekknum og skilaði 10 stigum á stuttum tíma og okkar menn voru komnir í forystu 36-33 þegar kom að hálfleik.
Pressuvörn Íslands var að gera Austurríkismönnum erfitt en þeir töpuðu mörgum boltum og það var ljóst að þrátt fyrir mikla baráttu Austurríkismanna að okkar menn ætluðu sér ekki að tapa forystunni. Eftir þriðja leikkhluta var staðan 57-52 og fjórði leikhlutinn var virkilega góður hjá okkar mönnum þar sem að Daði Lár, Jón Axel, Kristinn, Hjálmar og Breki skelltu í lás varnarlega og íslenska liðið gerði 23 stig gegn 10 stigum Austurríkismanna og lokatölur eins og áður sagði 80-62.
Jón Axel Guðmundsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 22 stig og tók 7 fráköst, Kristinn Pálsson gerði 16 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og þá gerði Hilmir Kristjánsson 12 stig á 17 mínútum og komst mjög vel frá sínu.
Strákarnir hafa núna unnið tvo leiki og tapað einum og mæta Georgíu á morgun en sá leikur er klukkan 15:15 að íslenskum tíma. Þá liggur fyrir að leikurinn gegn Ísrael á mánudag verður að öllum líkindum úrslitaleikur um annað sætið í riðlinum fyrir okkar menn en tvö efstu liðin fara í 8 liða úrslitin um sætin þrjú í A deild að ári. Liðin í 3. og 4. sæti í riðlunum leika um 9. til 16. sætið.
Strákarnir hugsa þó ekkert of langt fram í tímann. Þeirra einbeiting liggur í morgundeginum þar sem Georgía bíður og þrátt fyrir að Georgíumenn hafi tapað sínum þremur leikjum til þessa að þá eru þeir harðir í horn að taka og okkar menn þurfa að leika vel til að ná í sigur.
www.kki.is