Jón Arnór Stefánsson okkar allra skæðasti körfuknattleiksmaður mun ekki koma til með að taka þátt í Evrópukeppninni með landsliðinu í bili. Þetta kom í ljós núna um hádegisbilið eftir að KKÍ hafði reynt með öllu móti að reyna að tryggja kappann fyrir komandi leiki. Jón er í þeirri aðstöðu að vera samningslaus og leitar sér nú nýs liðs fyrir næsta tímabil. Þar af leiðandi er hann ótryggður fyrir meiðslum sem gerir stöðu hans ansi erfiða.
„Þetta er meira svekkelsi en vonbrigði en ég vil árétta að við hjá sambandinu skiljum hans aðstöðu fullkomlega og styðjum hann. Þessi ákvörðum var honum líkast til ekki auðveld en þetta er allt gert í fullu samlyndi. Auðvitað vildum við hafa hann með í þessum leikjum og við reyndum hvað við gátum en því miður varð þetta niðurstaðan. Jón hefur svo sannarlega skilað sínu til landsliðsins á síðustu árum og á eftir vonandi að gera það þegar hans mál eru orðin klár. ” sagði Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ.