Ísland vann í kvöld góðan 83-70 sigur á Bretum í Laugardalshöll í undankeppni Evrópumótsins 2015. Haukur Helgi Pálsson og Martin Hermannsson fóru á kostum í íslenska liðinu og á köflum virtist fátt geta stöðvað þá kumpána. Haukur Helgi lauk leik með 24 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar og Martin bætti við 22 stigum. Hlynur Bæringsson svaf ekki á tvennuvaktinni með 14 stig og 15 fráköst og Pavel Ermolinskij stimplaði sig út með 14 stoðsendingar og 7 stig!
Íslenska liðið bauð upp á draumabyrjun, 22-10 eftir fyrsta leikhluta en okkar mönnum fataðist flugið þegar hinn hávaxni Daniel Clark fór að bæta við sig snúning í breska liðinu í öðrum leikhluta og staðan 34-34 í hálfleik. Bretar náðu svo 6 stiga forystu í þriðja leikhluta en þeim leikhluta lokaði íslenska liðið vel og leiddi 59-58 fyrir þann fjórða og síðasta. Undir lok þriðja fóru þeir félagar Martin og Haukur að hnoða saman stórleik og héldu þannig áfram inn í fjórða leikhluta sem varð í einkaeigu íslenska liðsins.
Frábær sigur hjá íslenska liðinu og við ætlum að gefa Martin Hermannssyni tilþrif leiksins, þið megið velja samt hvort „up and under“ sniðskotið hans var flottara en það fyrra var svægiblandið enda karfa og villa að auki.
Einhverjir í Laugardalshöll höfðu það á orði að Jón Arnór Stefánsson mætti nú fara að passa sig, Martin Hermannsson tæki sig bara nokkuð vel út í treyju númer 9. Jón Arnór fylgdist með af tréverkinu og það var öllum það ljóst sem sóttu leikinn að sú seta var okkar fremsta manni ekki auðveld.
Þriggja stiga nýting íslenska liðsins hefði mátt vera betri í dag, aðeins 26,1% en krafturinn í okkar mönnum í fráköstunum var til fyrirmyndar, Bretar reyndar unnu þá baráttu 35-39 en það er nokkuð jafnt miðað við hæðarmismuninn.
Lokatölur 83-70 eins og áður greinir þar sem Daniel Clark var með 20 stig og 8 fráksöt í liði Breta. Þeir bresku verða illir viðureignar á heimavelli og ekki spurning að Íslendingar búsettir í Bretlandi þurfa að fjölmenna í Copper Box í London.
Ísland á 13 stig í sarpinum fyrir útileikinn gegn Bretum en áður en landsliðsmennirnir geta leitt hugann að þeirri staðreynd bíður erfiður andstæðingur í Bosníumönnum á útivelli þann 17. ágúst næstkomandi. Þar verður við ramman reip að draga.
Myndir/ Gunnar Freyr Steinsson – gunnarfreyr.com