Haukamaðurinn Terrence Watson segir nú skilið við íslenska boltann en kappinn hefur samið við lið í næstefstu deild í Ísrael sem heitir Macabbi K/G sem er nýtt lið í National League í Ísrael (næstefsta deild).
Watson fór mikinn með Haukum á síðasta tímabili með 24,2 stig og 15 fráköst að meðaltali í leik. Framganga Watson á síðustu vertíð hjálpaði Haukum að ná 5. sætinu í deildinni og þá fór liðið í úrslitakeppninna þar sem það datt út í fyrstu umferð – hið góða og glaðlynda tvennutröll verður því ekki körfuknattleiksáhugafólki til skemmtunar hérlendis á komandi leiktíð.
Watson sagði í eldsnöggu spjalli við Karfan.is að hann væri afar spenntur fyrir því að fara til Ísrael þó vissulega myndi hann sakna verunnar á Íslandi.
Mynd/ Halldór – Watson setti mark sitt heldur betur á Domino´s deildina á síðasta tímabili með magnaðri frammistöðu.