Nú þegar riðlakeppni forkeppni Eurobasket 2015 er hálfnuð er ekki úr vegi að skoða hvernig málin standa og hvaða lið komast áfram, miðað við núverandi stöðu.
Eins og flestir ættu að vita eru 7 riðlar, efsta lið hvers riðils kemst áfram og eins og staðan er núna eru það Bosnía, Ísrael, Þýskaland, Makedónía, Georgía, Lettland og Ítalía sem eru efst.
Þá er komið að liðunum í sem eru í öðru sæti, þau 6 lið sem eru með bestan árangurinn þar komast áfram og eitt situr eftir.
Eins og staðan er núna er það Sviss sem situr eftir og því eru það Belgía, Ísland, Holland, Pólland, Ungverjaland og Rúmenía sem komast áfram.
Til að útskýra hvernig það er reiknað þá er það þannig að í riðlunum sem eru fjögur lið þar eru úrslit neðsta liðsins fjarlægð. Eftir standa 7 þriggja liða riðlar. Þegar þangað er komið eru taldir sigrar og eins og staðan er núna eru öll liðin í öðru sæti með 1 sigur og 1 tap. Þar sem þau eru ekki í sama riðli þá hafa þau aldrei spilað og því ekki hægt að kíkja á innbyrðis viðureignir. Það sem er því gert er að fjölda skoraðra stiga er deilt með fjölda stiga sem liðin hafa fengið á sig, Ísland er t.d. með 145/142 sem er 1,0211.
Belgía er með 1,0827, Holland 1,0000, Pólland 0,9933, Ungverjaland 0,9856, Rúmenía með 0,8875 og Sviss situr eftir með 0,8323. En það er mikið eftir og allt getur gerst, t.d. eru Rússar með 0,9722 en eru í þriðja sæti og reikna margir með að þeir sigri Sviss á heimavelli og komist í annað sætið sem dæmi.