Breiðablik lagði Grindavík í kvöld í Smáranum í Subway deild kvenna, 77-71. Eftir leikinn er Breiðablik í 7. sæti deildarinnar með 4 stig á meðan að Grindavík er sæti ofar, í því 6. með 6 stig.
Fyrir leik
Liðin höfðu í tvígang áður mæst í deildinni í vetur og hafði Grindavík haft sigu í bæði skipti. Þann 10. október lögðu þær Blika með 14 stigum í Smáranum og þann 24. nóvember með 15 stigum heima í HS Orku Höllinni.
Gangur leiks
Heimakonur í Breiðablik byrjuðu leik kvöldsins mun betur heldur en gestirnir. Gjörsamlega keyrðu yfir Grindavík á upphafsmínútunum og voru 16 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 26-10. Í öðrum leikhlutanum svaraði Grindavík fyrir sig og náði nánast að jafna leikinn aftur fyrir lok fyrri hálfleiksins, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja munaði 6 stigum á þeim, 39-33.
Í upphafi seinni hálfleiksins gerðu heimakonur vel í að halda áfram að vera skrefinu á undan og var munurinn enn 5 stig eftir þrjá leikhluta, 61-56. Í lokaleikhlutanum gerir Grindavík svo heiðarlega atlögu að forystu Blika, en allt kemur fyrir ekki. Breiðablik sigrar að lokum með 6 stigum, 77-71.
Kjarninn
Grindavík gerði ansi vel að gera þetta að leik þrátt fyrir vonlausa byrjun. Eru óheppnar að missa tvo lykilleikmenn sína Robbi Ryan og Edyta Falenzcyk í villuvandræði frekar snemma í seinni hálfleiknum. Þrátt fyrir að báðar hafi nánast klárað leikinn, spiluðu þær mun minna heldur en þær gera venjulega vegna þessa. Blikaliðið, þrátt fyrir að vanta t.a.m. Önnu Soffíu og Iva Georgieva, lítur alltaf betur og betur út. Virðast vera að ná þeim styrk sem að búist var af þeim fyrir tímabilið, en það var kannski gefið að þær ynnu ekki marga leiki í langri fjarveru Isabellu Ósk og bandarísks leikmanns.
Atkvæðamestar
Michaela Lynn Kelly var atkvæðamest heimakvenna í leiknum með 24 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar. Þá bætti Isabella Ósk Sigurðardóttir við 12 stigum, 16 fráköstum og 4 vörðum skotum.
Fyrir Grindavík var Robbi Ryan best með 24 stig, 13 fráköst, 6 stoðsendingar og Edyta Ewa Falenzcyk bætti við 17 stigum og 7 fráköstum.
Hvað svo?
Samkvæmt skipulagi er næsti leikur Breiðabliks í deildinni þann 23. janúar gegn Haukum í Smáranum, en Grindavík leikur þremur dögum seinna, 26. janúar gegn Njarðvík í HS Orku Höllinni.