Fyrir þennan leik var augljóst að þetta væri mikilvægasti leikur sem Ísland hafi spilað síðan körfubolti fór að skoppa á skerinu. Allir helstu fjölmiðlar landsins voru með útsendara í London, RÚV með beina útsendingu, nokkur gömul legend fylgdu liðinu með í för. Það lá í loftinu að eitthvað stórkostlegt gat gerst í dag. Ísland gat með sigri troðið öðrum fætinum í dyragættina að Evrópumótinu á næsta ári.
Að sama skapi voru Bretar með bakið klesst upp við vegginn. Nánasta framtíð körfubolta í Bretlandi var mögulega í húfi og þeir hófu leikinn nákvæmlega eins og svo væri. Spiluðu flottan liðsbolta, létu tuðruna ganga og fundu opna menn. Íslenska liðið var hins vegar flatt og á hælunum í vörn allan fyrsta leikhluta. Bretar skoruðu 1,42 stig per sókn í fyrsta hluta, skutu 75% eFG og nýttu 61,2% sókna sinna til að skora 1 stig eða fleiri.
Sóknarleikur Íslands var alls ekki slæmur og það sem hélt liðinu inni í leiknum. Skutu 7/14 utan að velli og héldu lífi í sókninni með 3 sóknarfráköstum. Bretland hélt 22-18 forystu þegar fyrsta hluta lauk.
Vörnin hertist hjá okkar mönnum í öðrum hluta. Bretar hittu ágætlega en töpuðu boltanum alls 5 sinnum. Þetta hefði hentað Íslendingum mjög vel hefðu þeir gert betur í sókninni en það fór lítið fyrir því. Slæm ákvarðanataka einkenndi sókn okkar manna með 0/6 í þristum og 27,8% eFG í fjórðungnum. Skoruðu 0,56 stig per sókn og misstu leikinn í 10 stiga forystu Bretanna í leikhlé, 38-28.
Þvert á gang hinna leikjanna hrökk íslenska sóknin í gang í þriðja hluta. Vörnin var áfram frábær en sóknarleikurinn gerði gæfumuninn. Skotin fóru að detta en Ísland setti 5/7 í þristum og munaði oft miklu um þessi 4 sóknarfráköst sem voru nánast öll í eign Hlyns. Áhlaup Íslendinga skilaði 2 stiga forystu okkar manna þegar þriðji hluti hafði runnið sitt skeið.
Í fjórða hluta bar enn og aftur á slakri ákvarðanatöku okkar manna í sóknarleiknum. Vörnin hélt en þó að miklu leyti vegna þess að svo virtist sem Bretar hefðu gefist upp eða voru of þreyttir til að gera betur. Þeir blésu þó í lúðrana þegar um 4 mínútur voru eftir af leiknum og með 9-5 rispu tókst þeim að minnka muninn í 1 stig. Tímabil þar sem Íslendingar skutu 4 þriggja stiga skot og hittu úr einu.
Þegar þar var komið við sögu tók maður að nafni Jón Arnór Stefánsson boltann í fangið og hóf að stýra leik Íslendinga af mikilli fagmennsku. Róað niður sóknarleikinn, boltinn gekk og opna skotið fannst. Hörður Axel sýndi einnig framúrskarandi fagmennsku á lokamínútun leiksins. Barátta undir körfunni í vörn og skynsemi í sókn skilaði svo íslenska liðinu þessum mikilvæga sigri, 69-71. Sigur sem mun koma okkur langleiðina á fyrsta stórmót sem íslenskt landslið í körfubolta hefur nokkurn tímann komist á.
Jón Arnór var frábær í þessum leik. Skoraði 23 stig á 8/17 nýtingu. Hann sótti 7 villur á Bretana, flest allra á vellinum. Hörður Axel var ekki síðri með 17 stig á 6/12 skotnýtingu og þar af 3/5 í þristum. Hössi var einnig með hæsta +/- gildi allra leikmanna íslenska liðsins eða 10. Hlynur Bæringsson var stórkostlegur í teignum, reif niður 13 fráköst og þar af 7 í sókn. Fráköst sem ég fullyrði að gerðu gæfumuninn fyrir íslenska liðið. Hann var hins vegar ekki að finna sig í skotunum með 3/10 í heildina. Hlynur snéri sig illa í fjórða hluta og þurfti að fara af velli. Haukur Helgi átti góðan leik og var ekki langt frá því að setja einn af Bretunum á veggspjald með suddatroðslu.
Frábær liðssigur hjá Íslandi og einlæg von okkar allra að hann skili okkur inn á EM á næsta ári.
Nú skiptir okkur öll miklu máli að sem flestir komi í Höllina eftir viku og sýni Bosníumönnum að stemningin í Tuzla var bara saumaklúbbur í samanburði við almennileg íslensk læti.
UPPFÆRT:
Hlynur Bæringsson snéri ökklan illa í fjórða leikhluta. Hlynur var slappur í ökklanum fyrir en hann tognaði ansi illa núna. “Hann getur stigið í fótinn en ökklinn er slæmur,” sagði sjúkraþjálfari liðsins. Það er alls óvíst hvort hann muni geta spilað með gegn Bosníu eftir viku. Vonum þó að hvíld og köld mjólk hjálpi honum á fætur aftur.