spot_img
HomeFréttirNýr kafli íslenskrar körfuknattleikssögu

Nýr kafli íslenskrar körfuknattleikssögu

Líkast til voru þetta einhverjir eftirminnilegustu afmælisdagar sem landsliðsmennirnir Helgi Magnússon og Ragnar Nathanaelsson hafa átt en í kvöld tryggðu þeir og íslenska landsliðið sér sæti í lokakeppni Evrópumeistaramótsins á næsta ári. Bosníumenn höfðu betur að sinni, 70-78, en máttu heldur betur hafa fyrir sigrinum. Íslenska liðið hefur því opnað nýjan kafla í körfuknattleiksbókunum hérlendis en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland kemst á stórmót A-landsliða.
 
 
Jón Arnór Stefánsson var hreint út sagt magnaður í fyrri hálfleik. Gerði 17 stig og fyrstu tíu stig Íslands í leiknum. Bosníumenn áttu engin svör við kappanum en það vantaði tilfinnanlega fjölbreyttara framlag og það kom hægt og bítandi þegar Haukur Helgi Pálsson og Hörður Axel Vilhjálmsson náðu upp sínum takti.
 
Hlynur Bæringsson lenti snemma í villuvandræðum og setti það umtalsvert strik í reikninginn, innkomur hjá Axeli Kárasyni og Ragnari Nathanaelssyni voru þó ljómandi fínar. Bosníumenn réðust oftar en ekki grimmt á teiginn og framan af var nýtingin þeirra virkilega góð, með fínu boltaflæði, skotin að detta og næmt auga fyrir opna manninum í kringum körfuna lenti íslenska vörnin oft í basli.
 
Framúrskarandi annar leikhluti gaf af sér 31 stig fyrir Ísland og fór liðið með 47-43 forystu inn í hálfleik. Þegar flautað var til hálfleiks varð ljóst að Ísland mátti allt eins tapa leiknum með um 30 stiga mun en það vildu allir sigur og nokkrar betri ákvarðanir, nokkrum prósentum stærri lungu og Bosníumenn hefðu þurft að krjúpa á Klakanum en svo varð því miður ekki.
 
Liðsmönnum fannst það á mis skrýtið og ekki að fagna eftir tapleik en þeir höfðu ærna ástæðu til þess að vera stoltir sem og Íslendingar allir því í fyrsta sinn munum við taka þátt í lokakeppni Evrópumeistaramótsins. Flestum hefur eflaust þótt þessi raunveruleiki vera fjarstæðukenndur en hingað er hann kominn og þessir jaxlar sem skipa landsliðið, allt þeirra fólk og hreyfingin, þá allir þeir sem lagt hafa sín lóð á vogarskálarnar í gegnum árin eiga mikinn heiður skilinn fyrir þetta kyngimagnaða afrek.
 
Goðsögnin Dusko Ivanovic þjálfari Bosníumanna var sáttur með sigurinn í leikslok en við birtum viðtal við hann á morgun. Ivanovic sagðist ekki hafa átt von á jafn mikilli mótspyrnu eins og raun bar vitni og hrósaði íslenska liðinu en hann sagði Bosníu með ungt og spennandi lið og kvaðst spenntur fyrir þátttökunni á Evrópumótinu á næsta ári.
 
Þá er ekki seinna vænna en að óska landsmönnum öllum til hamingju með árangurinn og ekki ráð nema í tíma sé tekið að huga að því hvar lokakeppnin fari fram og hvernig við munum nú öll komast fyrir þar. Nýr kafli er hafinn í körfuknattleikssögunni á Íslandi. Njótið þess að fylgjast með hvernig honum vindur fram.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -