spot_img
HomeFréttirSpánn, Grikkland, Slóvenía og Bandaríkin ósigruð

Spánn, Grikkland, Slóvenía og Bandaríkin ósigruð

Risavaxinn dagur er að baki á heimsmeistaramótinu á Spáni en í dag voru alls tólf leikir á dagskránni. Rétt eins og eftir gærdaginn eru enn fjögur lið sem hafa ekki tapað leik en það eru Spánn, Grikkland, Bandaríkin og Slóvenía. Spánverjar skelltu Frökkum örugglega í lokaleik kvöldsins, 88-64. Finnar máttu svo þola ósigur gegn Tyrkjum eftir framlengdan spennuslag, lokatölur 77-73 Tyrki í vil.
 
 
Mexíkó 62-70 Ástralía
Ástralir unnu sinn þriðja leik í röð á mótinu eftir tíu stiga tap í fyrsta leik gegn Slóvenum. Gustavo Ayon leikmaður Atlanta Hawks var stigahæstur í liði Mexíkóa með 11 stig og 9 fráköst en Aron Bynes leikmaður San Antonio Spurs gerði 21 stig og tók 5 fráköst fyrir Ástrali.
 
Filippseyjar 73-77 Púertó Ríkó
Andray Blatche átti stórleik fyrir Filippseyinga með 25 stig og 14 fráköst en það dugði ekki til og fjórir ósigrar í röð því staðreynd. Hjá Púertó Ríkó var Jose Barea leikmaður Minnesota Timberwolves með 30 stig og 5 fráköst.
 
Nýja Sjáland 73-61 Úkraína
„Tall Blacks“ lönduðu sínum fyrsta sigri á mótinu og með þessum sigri settu þeir Finna á botn C-riðils sem töpuðu í framlengingu gegn Tyrkjum í kvöld. Kirk Penney leikmaður Trabzonspor í Tyrklandi var stigahæstur Nýsjálendinga með 17 stig og 7 fráköst en Maxym Kornienko gerði 15 stig og tók 4 fráköst fyrir Úkraínumenn.
 
Egyptaland 74-88 Íran
Youssef Shousha var með 15 stig og 3 fráköst í liði Egypta en hjá Írönum var Samad Nikkhah Bahrami með 24 stig og 6 stoðsendingar. Þrátt fyrir sigur Írana í kvöld eru þeir á botni A-riðils ásamt Egyptum en Egyptar hafa enn ekki fundið sigur á Spáni þetta mótið.
 
Slóvenía 93-87 Angóla
Domen Lorbek var stigahæstur Slóvena með 17 stig og 4 stoðsendingar en hjá Angólum var Roberto Fortes með 21 stig og 3 fráköst. Þar með eru Slóvenar með fjóra sigra í röð á HM og tróna á toppi D-riðils en Angólar eru í fallsæti ásamt Kóreu en eiga leik upp á að hlaupa.
 
Senegal 46-81 Argentína
Stuðið í Senegal var jafnað við jörðu í dag. Risa skellur gegn sterkum Argentínumönnum og skildu leiðir liðanna strax í öðrum leikhluta sem Argentína vann 21-9. Fjórði leikhluti fór svo 28-8 fyrir Argentínu og Senegalar sem höfðu unnið tvo leiki og tapað einum fyrir leikinn gegn Argentínumönnum heldur betur rassskelltir. Luis Scola fór illa með Senegala, skellti á þá 22 stigum og reif í sig 14 fráköst. Hjá Senegal var Gorgui Dieng leikmaður Minnesota með 11 stig og 8 fráköst.
 
Tyrkland 77-73 Finnland
Fjölmennastir á pöllunum en þetta ætlar ekki alveg að hafast hjá frændum okkar Finnum. Súrt tap í dag gegn Tyrkjum eftir framlengdan leik og Finnar á botni C-riðils ásamt Nýsjálendingum en eiga leik gegn Nýsjálendingum á morgun. Sigur og ekkert annað hjálpar Finnum að halda áfram í keppninni en útlitið er ekki gott um þessar mundir. Petteri Koponen var atkvæðamestur Finna í dag með 17 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar en hjá Tyrkjum var Ömer Asik leikmaður Houston Rockets með 22 stig og 8 fráköst.
 
Serbía 73-81 Brasilía
Serbar skitu á bitann í fjórða leikhluta sem Brassar unnu 21-9 og leikinn 81-73. Marquinhos Vieira var atkvæðamestur Brassanna með 21 stig og 5 fráköst en hjá Serbum var Milos Tedosic með 14 stig og 5 stoðsendingar. Brasilía er í 2. sæti A-riðils með 3 sigra og einn tapleik og þar á eftir í 3. sæti koma Serbar með 2 sigra og tvo tapleiki rétt eins og Frakkland en næsti leikur Serba er gegn Spáni og næsti leikur Frakka er gegn Íran.
 
Litháen 79-49 Kórea
Adas Juskevicius gerði 20 stig stig í liði Lithá og tók einnig 3 fráköst en hjá Kóreumönnum var Taejong Moon með 20 stig. Kóreumenn hafa tapað öllum fjórum leikjunum sínum til þessa og eiga einn leik eftir gegn Mexíkó.
 
Grikkland 76-65 Króatía
Kostas Papanikolaou leikmaður Barcelona og Kostas Kaimakoglu leikmaður Uniks Kazan í Rússlandi voru báðir með 14 stig í gríska liðinu í dag. Hjá Króötum var Nets-leikmaðurinn Bojan Bogdanovic með 20 stig og 4 fráköst.
 
Dóminíska lýðveldið 71-106 Bandaríkin
Fjórði sigurleikur Bandaríkjamanna í röð og að þessu sinni var Kenneth Faried leikmaður Denver Nuggets stigahæstur með 16 stig og 6 fráköst. Hjá Dóminíska lýðveldinu var Victor Liz með 15 stig og 3 fráköst. Síðasti leikur Bandaríkjanna í riðlinum er gegn Úkraínumönnum sem eru í 2. sæti með tvo sigra og tvo tapleiki rétt eins og Tyrkir.
 
Spánn 88-64 Frakkland
Marc Gasol fór fyrir Spánverjum í kvöld með 17 stig og 6 fráköst og bróðir hans Pau var ekki langt undan með 15 stig og 4 fráköst. Hjá Frökkum voru Batum og Diot báðir með 11 stig.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -