spot_img
HomeFréttirBörn á Suðurnesjunum styrkt til íþróttaiðkunar

Börn á Suðurnesjunum styrkt til íþróttaiðkunar

Minningarsjóður Ölla hefur veitt Velferðarsjóði Suðurnesja styrk að upphæð ein milljón króna. Upphæðin safnaðist að stórum hluta í áheitasöfnun fyrir sjóðinn í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið sem fram fór þann 23. ágúst síðast liðinn en 45 hlauparar hlupu fyrir sjóðinn. Í júní síðast liðnum veitti minningarsjóðurinn sömu styrkupphæð til Fjölskylduhjálpar Íslands. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Minningarsjóði Ölla.
 
 
Markmið Minningarsjóðs Ölla er að styrkja börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna. Velferðarsjóður Suðurnesja mun eyrnamerkja upphæðina málefninu og styrkja þau börn á Suðurnesjum til íþróttaiðkunar sem á þurfa að halda. Getur styrkurinn ýmist falist í íþróttafatnaði og skóm, æfingagjöldum, styrk til keppnisferða o.s.frv. Aðstandendur barna geta sótt um styrkinn hjá Velferðarsjóðnum en einnig er vel tekið á móti öllum ábendingum frá þjálfurum, kennurum og öðrum þeim sem vita hvar þörfin er mest.
 
Velferðarsjóður Suðurnesja var stofnaður haustið 2008 en tilefnið var að mæta brýnni þörf á svæðinu fyrir félagslegan stuðning til viðbótar þeim úrræðum sem hið opinbera veitir ásamt Hjálparstarfi kirkjunnar. Þórunn Íris Þórisdóttir tók á móti styrknum fyrir hönd sjóðsins. Að þessu sinni afhentu fjórar glæsilegar íþróttastúlkur úr Reykjanesbæ styrkinn fyrir hönd minningarsjóðsins en þær tóku allar þátt í áheitasöfnuninni fyrir Minningarsjóð Ölla í Reykjavíkurmaraþoninu. Myndin af hópnum sem fylgir með tilkynningunni er tekin við málverkið Engill vonarinnar eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur í kapellu Keflavíkurkirkju en það þótti vel við hæfi. Það er von þeirra sem standa að Minningarsjóði Ölla að styrkupphæðin muni nýtast börnum á svæðinu og gefa ungum hjörtum von sem og tækifæri til hreyfingar. Einnig vill sjóðurinn koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hlupu og söfnuðu áheitum í Reykjavíkurmaraþoninu og til þeirra sem hétu á hlauparana.
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -